Innlent

Hrekkjusvín biðst afsökunar á fölskum tilkynningum

Lukkuhjól.
Lukkuhjól.

„Ég verð víst að biðja alla afsökunar sem urðu mínum hrekk að bráð. En klukkan 18:00 kem ég til með að tilkynnar öllum á facebook að þetta var víst ég," skrifar maður sem kallar sig Ingimund en hann sendi fréttastofu póst eftir að Vísir sagði frá ósmekklegum hrekki þar sem fólki var tilkynnt að þeir hefðu unnið í lukkuhjólsleik flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli og Iceland Express.

Í tilkynningu frá flugstöðinni sagði að um illkvittinn hrekk væri að ræða sem gefi þátttakendum falska von um vinning og skapraunar grunlausum þátttakendum í vinningsleiknum sem býður upp á ferðavinninga með Iceland Express.

Í bréfinu sem Ingimundur sendi frá sama póstfangi og einstaklingar hafa fengið fölsku gleðifregnirnar, segir hann að fólk hafi ekki verið valið af handahófi, né var um fjölmennan hóp að ræða, heldur hafi hann tekið hluta af eigin póstlista, ættingjum og vinum og sent þessa eftirlíkingu af vinningi frá flugfélaginu.

„Ég byrjaði á þessu í gær, og svo um 15 manns þennan póst í gærkvöldi," segir Ingimundur, sem gefur ekki upp föðurnafn.

Hann segir ennfremur í póstinum:„Mér tókst í gærdag að hrella nokkra vinnufélaga mína með slíkum fölsum vinningum og skemmti mér vel yfir því. Í gærkvöldi hrekkti ég fleiri og sendi póst og skemmti mér vel yfir því líka, en ég verð samt að viðurkenna að ég hef samt ekki hlegið jafn mikið og ég gerði þegar ég sá aðvörunarfrétt mbl og visis á vefnum."

Þrátt fyrir að hafa stórskemmt sér yfir hrekknum sem rataði í fjölmiðla þá biður hann fölsku vinningshafana afsökunar.

Hann áréttar þó að hrekkurinn hafi hleypt birtu inn í líf sitt: „En verð samt að segja að ég hef ekki hlegið vel og lengi eins og að þessu hrekk, viðbrögð fólks hafa verið misjöfn en fyndin og ég skemmt mér og fleirum í kringum mig óbærilega mikið með þessu, og hvað þá núna þegar þetta varð fréttamatur."

Að lokum óskar hann öllum gleðilega hátíð og bætir við, „og vona að mér verði fyrirgefið."






Tengdar fréttir

Hrekkja þátttakendur í jólaleik

Nokkrum þátttakendum í lukkuhjólsleik flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli og Iceland Express, sem víða er að finna á vefnum, hafa borist falsaðar tilkynningar um vinning sem sendar er frá netfanginu kefairport@gmail.com.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×