Innlent

Árásarkonan í Keflavík var allsgáð

Af vettvangi Konan bankaði upp á í þessu húsi og stakk stúlkuna í brjóstið þegar hún kom til dyra. Hún var handtekin skömmu síðar á heimili sínu.
Fréttablaðið/Vilhelm
Af vettvangi Konan bankaði upp á í þessu húsi og stakk stúlkuna í brjóstið þegar hún kom til dyra. Hún var handtekin skömmu síðar á heimili sínu. Fréttablaðið/Vilhelm

Konan sem handtekin var í Keflavík á sunnudag fyrir að stinga fimm ára stúlku í brjóstið hefur játað brotið. Hún var hvorki undir áhrifum áfengis né vímuefna þegar árásin var gerð, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Henni hefur verið gert að gangast undir geðrannsókn.

Stúlkan sem ráðist var á er á batavegi en er enn á Barnaspítala Hringsins. Litlu mátti muna að verr færi fyrir henni, en hnífurinn var einungis nokkrum millimetrum frá því að fara í hjarta hennar.

Konan var í gær úrskurðuð í fimm daga gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Hún kærði ekki úrskurðinn til Hæstaréttar.

Konan, sem er 22 ára gamall íslenskur ríkisborgari, bankaði á útidyrnar á heimili stúlkunnar við Suðurgötu í Keflavík á hádegi á sunnudag, og stakk stúlkuna síðan í brjóstið með stórum eldhúshníf þegar hún kom til dyra. Ellefu ára systir stúlkunnar varð vitni að árásinni.

Leiddar hafa verið getur að því að konan hafi með árásinni viljað hefna sín á foreldrum stúlkunnar, en þeir höfðu kært hana fyrir skemmdarverk og hótanir.

Að því er fram kom í fréttum RÚV í gær hefur konan áður hlotið dóm fyrir líkamsárás og hafa barnaverndaryfirvöld fylgst með henni lengi. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×