Viðskipti innlent

Byggðastofnun tapaði tæpum 1,7 milljörðum, eigið fé horfið

Byggðastofnun skilaði 1.663 milljón kr. tapi á fyrri helming ársins. Fjárhagsstaða stofnunarinnar er mjög slæm því samkvæmt árshlutauppgjörinu er eigið fé stofnunarinnar orðið neikvætt um 118,7 milljónir kr.

Í tilkynningu um uppgjörið segir að framlög í afskriftarreikning útlána og matsbreyting hlutafjár námu 2.161 milljónum kr. á tímabilinu.

Eignir námu 22,8 milljörðum kr. og hafa lækkað um 518.6 milljónir kr. frá áramótum. Þar af voru útlán 18,9 milljarðar kr. Skuldir námu 22,9 milljörðum kr. og hafa hækkað um 1.145 milljónir kr. frá áramótum.

Eiginfjárhlutfall skv. lögum um fjármálafyrirtæki er -4,74% en skal að lágmarki vera 8%

„Vegna þeirra erfiðleika sem dunið hafa yfir íslenskt efnahagslíf undanfarna mánuði hefur stofnunin þurft að leggja aukna fjármuni inn á afskriftarreikning útlána vegna mögulegrar taphættu. Á tímabilinu nam þessi fjárhæð 1.930 milljónum kr. Í samanburði við 1.237 milljónum kr. allt árið 2008. Skýrist tap stofnunarinnar og neikvætt eiginfjárhlutfall á tímabilinu af þessum varúðarfærslum," segir í tilkynningunni.

Ennfremur segir að Fjármálaeftirlitið hefur gefið stofnuninni frest til 8. desember 2009 til að koma eiginfjárhlutfallinu upp fyrir 8% lágmark.

Af hálfu stjórnar hefur iðnaðarráðherra verið gerð grein fyrir stöðu mála. Nauðsynlegt er að auka eigið fé stofnunarinnar til að uppfylla kröfur laga um fjármálafyrirtæki um lágmarkseiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja. Verði það ekki gert leikur verulegur vafi á áframhaldandi rekstrarhæfi stofnunarinnar.

Iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra hafa lýst því yfir að ríkisstjórnin hafi ákveðið að leita heimilda á fjáraukalögum til að tryggja lágmarks eiginfjárhlutfall stofnunarinnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×