Erlent

Krefst skilnings af Kínverjum

Sarkozy hitti Dalai lama sem hleypti illu blóði í Kínverja.
Sarkozy hitti Dalai lama sem hleypti illu blóði í Kínverja.

Francois Fillon, forsætisráðherra Frakklands, krefst þess að kínversk stjórnvöld sýni vestrænum lýðræðishefðum umburðarlyndi, en tók jafnframt fram að Frakkar vildu alls ekki móðga Kínverja.

„Kína er stórt land sem þarf að leysa sín eigin vandamál upp á eigin spýtur," sagði Fillon, sem var í heimsókn í Peking. „Á hinn bóginn er Frakkland gamalt lýðræðisríki. Við erum með málfrelsi og allir geta sagt það sem þeir vilja. Þetta er okkar hefð og Kínverjar ættu að skilja það."

Kínversk stjórnvöld tóku það óstinnt upp að útlægir Tíbetar og aðrir mótmælendur trufluðu hlaup íþróttamanns með Ólympíukyndilinn í París á síðasta ári. Ekki hresstust þau þegar Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti tók upp á því að hitta Dalai Lama, leiðtoga Tíbetbúa, og eiga við hann gott spjall.

Samband ríkjanna hefur þó skánað á ný eftir að Sarkozy hitti Hu Jintao, forseta Kína, á leiðtogafundum í apríl og september á þessu ári.

Tilgangur ferðar Fillons til Kína er að styrkja tengslin enn frekar, og á blaðamannafundi í Peking sagðist hann telja að sér hefði tekist það.- gb








Fleiri fréttir

Sjá meira


×