Handbolti

Alexander afgreiddi Lemgo

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Alexander var frábær í kvöld.
Alexander var frábær í kvöld.

Alexander Petersson átti sannkallaðan stórleik fyrir Flensburg í kvöld er liðið lagði Lemgo, 23-24, og endurheimti þriðja sæti deildarinnar. Lemgo í áttunda sætið eftir tapið á heimavelli.

Lemgo var nánast með unninn leik í höndunum þegar Alexander fékk loksins tækifæri hjá Lemgo. Þá var staðan 21-15 fyrir Lemgo en íslenski landsliðsmaðurinn var fljótur að kveikja neistann hjá sínum mönnum.

Hann skoraði tvö mörk í röð og kom sínum mönnum í gang. Þriðja markið hjá Alexander kom er hann jafnaði 21-21 og hann skoraði sitt fjórða mark er Flensburg náði tveggja marka forskoti, 21-23. Átta mörk í röð og Alexander með helminginn af mörkunum.

Lemgo fékk tækifæri til þess að jafna í lokasókninni en þá sýndi Alexander snilld sína í vörninni er hann fiskaði ruðning á sóknarmann Lemgo. Lygileg frammistaða hjá íslenska landsliðsmanninum sem fær ótrúlega lítið að spila hjá Flensburg.

Vignir Svavarsson skoraði tvö mörk fyrir Lemgo. Logi Geirsson var í byrjunarliði Lemgo sem hornamaður. Hann fékk ekki eitt færi áður en hann var tekinn af velli og til að bæta gráu ofan á svart var honum ekki hleypt aftur inn á völlinn þó svo sóknarmenn liðsins væru með allt niður um sig.

Rúnar Kárason skoraði þrjú mörk fyrir Fuchse Berlin sem tapaði stórt gegn Dormagen, 32-23. Berlin í 9. sæti deildarinnar.

Gylfi Gylfason skoraði tvö mörk fyrir Minden og Ingimundur Ingimundarson eitt er liðið tapaði gegn Göppingen, 21-23. Minden er í næstneðsta sæti deildarinnar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×