Erlent

Regnmaðurinn látinn

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Kim Peek.
Kim Peek.

Kim Peek, fyrirmyndin að regnmanninum sem Dustin Hoffman túlkaði í samnefndri kvikmynd, er látinn, 58 ára að aldri.

Það er ekki allra að kunna 12.000 bækur gjörsamlega utanbókar, þar á meðal sjálfa biblíuna og nokkrar símaskrár, eða geta sagt nákvæmlega til um hvaða vikudagur ákveðin dagsetning var, þess vegna marga áratugi aftur í tímann. Þetta lék þó allt saman í höndunum á Kim Peek frá Salt Lake City en hann er fyrirmyndin að Raymond Babbit, persónu Dustin Hoffman í kvikmyndinni Rain Man frá 1988, sem sópaði til sín verðlaununum, þar af fernum Óskarsverðlaunum af tvöfalt fleiri tilnefningum.

Peek hafði vissulega minni sem á sér ekki hliðstæðu en átti þó við svo mikla líkamlega fötlun að stríða að hann þurfti aðstoð föður síns, Fran Peek, við flestar daglegar athafnir. Ástæðan er sú að Peek stríddi við það ákaflega sjaldgæfa ástand að fæðast án svokallaðra hvelatengsla, taugaknippis sem tengir hægra og vinstra heilahvel. Fyrir vikið hlaut hann takmarkalaust minni en hafði litla sem enga stjórn á líkamshreyfingum.

Frægt varð þegar Peek var viðstaddur flutning leikrits eftir Shakespeare og hrópaði upp þegar einn leikaranna sleppti úr orði. „Hverjum er ekki sama?“ spurði leikarinn. „Shakespeare hefði ekki verið sama,“ svaraði Peek að bragði. Darold Treffert, geðlæknir við Háskólann i Wisconsin, sagði að Peek væri eins konar lifandi Google.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×