Viðskipti innlent

Aðstoðarbankastjóri Kaupþings endurskoðaði aflandsfélög

Kaupþing stofnaði og sá um endurskoðun á fjölmörgum félögum í skattaparadísum í gegnum endurskoðunarfyrirtæki á bresku jómfrúareyjunum. Fyrrverandi aðstoðarbankastjóri Kaupþings, sem ekki er endurskoðandi, sá einnig um endurskoðun.

Kaupþing í Lúxemborg stofnaði fjölmörg félög þar í landi. Í flestum tilfellum var það gert í gegnum 2 til 3 skúffufélög á eyjunni Tortola. Alls notaði Kaupþing átta skúffufélög í félagastofnunina og tvö endurskoðendafyrirtæki, Themis Audit Limited og Rothley Company Limited.

Heimilsfang félaganna allra sem og endurskoðunarfyrirtækjanna er pósthólf 3186 á Tortola. Fréttastofa hefur undir höndum ársreikninga nokkurra fyrirtækja sem stofnuð voru með þessum hætti og eru skráð í Lúxemborg. Með þeim fylgir skýrsla endurskoðandans Rothley Company Limited til stjórna félaganna þar sem fram kemur að ársreikningurinn hafi verið endurskoðaður þó ekki af löggiltum endurskoðanda. Undir þetta skrifar, fyrir hönd endurskoðunarfyrirtækisins, Björn Jónsson.

Björn var aðstoðarbankastjóri Kaupþings í Lúxemborg en gengdi þar á undan stöðu yfirmanns einkabankaþjónustu. Hann er menntaður viðskiptafræðingur en ekki löggiltur endurskoðandi. Björn er ekki eini starfsmaður Kaupþings sem þetta gerði en fréttastofa hefur einnig séð nöfn annarra erlendra starfsmanna bankans koma við sögu.

Endurskoðandi sem fréttastofa ræddi við sagðist ekki vita hvaða reglur gilda í Lúxemborg en það væri ekki í samræmi við íslensk lög að aðrir en löggilltir endurskoðendur skrifi undir ársreikninga fyrir hönd endurskoðunarfyrirtækis.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×