Innlent

Lögreglumaður tjáir sig - partur 2

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Lögreglumaðurinn heldur áfram:

Nú mun vera í bígerð að setja rannsóknarlögreglumenn á vaktir og svelta þar með rannsóknardeild LRH sem nú þegar er á grafarbrúninni. Ljóst er að ef af því verður munu mál fá seinan eða engan framgang hjá lögreglu. En það er víst um seinan, því í dag hrúgast málin upp án þess að lögreglan fái neitt við ráðið.



Mál frá því í maí í bökkum lögreglu - vitni gleyma atburðarás


Ég er viss um að almenningi þætti vænt um að vita að í bökkum rannsóknarlögreglumanna eru mál frá því í maí sem hafa enn ekki verið skoðuð. Kemur það niður á þeim málum þar sem sum sönnunargögn, eins og upptökur, eyðast með tímanum.

Einnig gleyma vitni og sakborningar í málunum ákveðnum staðreyndum sem geta verið lykilatriði í þeim málum. Þessi mál týnast í stórum málabunkum manna og eins og ég hef áður nefnt eru menn með 30-40 eða jafnvel fleiri mál í rannsókn hverju sinni.

Sumir átta sig ekki á þessum tölum en við getum þá tekið sem dæmi einföldustu málin þar sem um er að ræða tvö vitni og einn sakborning. Skýrslu þarf að taka af öllu þessu fólki og ef málin eru 30, þá þarf að yfirheyra 90 manns. Einnig þarf að afla gagna og framkvæma ýmsar rannsóknir, fyrir utan alla pappírsvinnu sem málunum fylgir. En á meðan þessi mál eru rannsökuð koma önnur mál upp, en þau eru mun fleiri en áður hefur verið. Þessi mál bætast því við þennan fjölda mála.

Að lokum er svo komið að rannsóknarlögreglumaðurinn er kominn með hátt í hundrað mál, sem hann hefur enga yfirsýn yfir, er orðinn að skjalaverði og svarar fyrirspurnum frá fólki úti í bæ hvernig málin gangi hjá honum. Þetta er þegar orðið svoleiðis hjá sumum. Fyrir lögreglumenn, sem fóru margir hverjir í starfið til að hjálpa öðrum, er þetta niðurlæging og verður til þess að menn brenna út í starfi. Þetta er ekki heilbrigt vinnuumhverfi.

Þetta óheilbrigða vinnuumhverfi og stöðuga álag á rannsóknardeildir LRH hefur orðið til þess að málum er hent út af borðum mun fyrr en ella. Það er til þess að menn fái tíma til að sinna stærri og alvarlegri málum. Þannig eru mál felld niður sem líklega hefðu getað fengið framgang fyrir nokkrum árum síðan. Slíkt er að sjálfsögðu ömurlegt fyrir siðferðiskennd lögreglumanna. En þetta virðist þó eina lausnin til að ná í hættulegustu brotamennina. Því ekki er til peningur til að ná í þá minna hættulegu.

Deildir lagðar niður - 61% aukning innbrota

Breytingar á rannsóknardeildum sem voru gerðar í maí urðu til þess að innbrotadeild og rannsóknardeild umferðardeildar voru lagðar niður. Af því tilefni vill ég benda á 61% aukningu innbrota frá því á síðasta ári, sem hefði í raun átt að verða til þess að efla deildina. Núna eru sérhæfðar deildir sem sjá um alvarlegri ofbeldismál, manndráp, kynferðisbrot, fjársvik og stærri fíkniefnabrot.

Allt annað sjá almennir rannsóknarlögreglumenn um. Því hafa fyrrum starfsmenn innbrotadeildar verið sendir á vettvang stærri umferðarslysa undanfarið og fyrrum umferðardeildarmenn rannsakað innbrot og fíkniefnamál. Með breytingunum voru lagðar niður tvær sérhæfðar deildir sem sinntu stórum og viðamiklum málaflokkum. Flestum rannsóknarlögreglumönnum finnst þetta óhæfa, sem þetta er vitaskuld. Þetta er sparnaðaraðgerð og spurningin er hvort hún skili viðunandi löggæslustigi.

Síðasti pistill lögreglumannsins birtist á Vísi innan skamms.






Tengdar fréttir

Lögreglumaður tjáir sig öðru sinni

Lögreglumaðurinn sem tjáði sig við fréttastofu fyrr í vikunni, er afar þakklátur fyrir þá umræðu og viðbrögð sem tölvupóstur hans hefur fengið enda þykir honum og fleirum málið mjög mikilvægt. Nú hefur fréttastofu borist annar póstur frá ónefnda lögreglumanninum.

Neyðarkall frá lögreglumanni

Lögreglumönnum er stefnt í hættu vegna fámennis í lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Í sumum tilfellum eru þeir einir á bílum, jafnvel á næturvöktum um helgar. Svo hljóðar bréf sem fréttastofa Vísis og Stöðvar 2 fékk sent í gærkvöld frá manni sem segist vera lögreglumaður. Maðurinn segist ekki koma fram undir nafni af ótta við yfirstjórn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×