Erlent

Styr vegna McDonald's á leikunum 2012

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Sú ákvörðun skipuleggjenda Ólympíuleikanna í London árið 2012, að láta skyndibitakeðjuna McDonald's annast fimmtung þeirra máltíða sem þar verða í boði, hefur vakið hörð viðbrögð heilbrigðispostula.

Hvorki meira né minna en 14 milljónir máltíða verða bornar á borð fyrir gesti Ólympíuleikanna þær tvær vikur sem þeir standa. Nú hafa skipuleggjendur leikanna gefið það út að McDonald's muni standa á bak við þrjár milljónir þeirra máltíða. Hamborgarakeðjan mun því eiga eitt þriggja vörumerkja sem sýnileg verða í fæðuvali leikanna, hin tvö eru Coca Cola og Cadbury-súkkulaðið. Annar matur verður ómerktur enda kemur hann ekki frá sérstökum styrktaraðilum leikanna en McDonald's, Coca Cola og Cadbury eru styrktaraðilar leikanna og greiða risavaxnar summur fyrir það.

Cadbury greiðir til dæmis litlar 20 milljónir punda, jafnvirði um fjögurra milljarða króna, til að fá að kalla sig beinan styrktaraðila, eða direct sponsor, Ólympíuleikanna. Þetta hugnast samtökum á borð við Bresku hjartaverndarsamtökin og Samtök gegn offitu lítt enda hafa hávær mótmæli komið frá herbúðum þeirra þar sem því er meðal annars slegið fram að Ólympíuleikar hljóti að tengjast heilsuvernd órofa böndum og því stingi það rækilega í stúf að fita, sykur og salt verði stór hluti af fæðunni. Talsmenn McDonald's verjast fimlega og benda á að öll mjólk hjá þeim sé nú lífræn og eggin úr lausagönguhænum. Þá verði sérstakur heilsumatseðill í boði á leikunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×