Erlent

Þrjúhundruð fallnir og særðir í Bagdad

Óli Tynes skrifar
Frá einum árásarstaðnum í Bagdad í dag.
Frá einum árásarstaðnum í Bagdad í dag. Mynd/AP
Lögregluyfirvöld í Bagdad segja að að minnsta kosti 112 hafi látið lífið í árásunum og um 197 særst. Mörgum þeirra er ekki hugað líf.

Sprengjurnar sprungu allar á svipuðum tíma sem bendir til þess að sami aðilinn hafi skipulagt þær allar.

Sprengjurnar voru svo öflugar að nálægar byggingar hrundu eða stórskemmdust. Aðkoman var skelfileg. Sundurtætt lík og sært fólk lá eins og hráviði út um allt.

Talið er að ódæðismennirnir hafi með þessu verið að senda pólitísk skilaboð.

Bæði er að íraska þingið kemur saman í dag og þar eru menn meðal annars að ákveða dagsetningu fyrir kosningar á næsta ári.

Eins voru þrjár sprengjurnar sprengdar við opinberar byggingar meðal annars nýja fjármálaráðuneytið. Það gamla var lagt í rúst í sprengjuárás í ágúst síðastliðnum.

Það vekur óhug og kvíða að þetta voru síður en svo auðveld skotmörk. Mikil öryggisgæsla er við opinberar byggingar.

Þetta þykir sýna að þótt ýmislegt hafi áunnist í að koma á friði í höfuðborginni virðast hryðjuverkamenn ennþá geta gert árásir nánast þar sem þeim sýnist.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×