Erlent

Boðflennur í Hvíta húsinu 91 sinni á 30 árum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Salahi-hjónin í fríðu föruneyti Obama.
Salahi-hjónin í fríðu föruneyti Obama.

Næstum því hundrað sinnum hafa hinir og þessir aðilar komist með einum eða öðrum hætti fram hjá öryggisgæslu Hvíta hússins síðan árið 1980.

Þetta kemur fram í skýrslu sem lekið var til bandarískra fjölmiðla og þykir ekkert skemmtiefni fyrir hina svartklæddu Secret Service sem gætir Bandaríkjaforseta og fjölskyldu hans nótt sem nýtan dag. Listinn í skýrslunni er langur, vitað er um 91 atvik þar sem óviðkomandi aðilar hafa með einum eða öðrum hætti komist mislangt inn á gæslusvæði Hvíta hússins, sumir bara rétt inn á grasflötina en aðrir hafa farið alla leið að dyrum forsetaskrifstofunnar eða látið mynda sig með forseta og varaforseta brosandi út að eyrum í fimm stjörnu kvöldverði eins og hinum nú heimskunnu Salahi-hjónum tókst nýverið.

Reyndar þverneita þau að hafa verið boðflennur og fullyrða enn að þau hafi verið á gestalista. Sá listi hefur að minnsta kosti ekki fundist. Frægt varð þegar fjögurra manna fjölskylda ók að hliðinu árið 1982, flautaði og var hleypt inn. Þau komust inn í húsið og að dyrunum hjá Reagan áður en þau voru stöðvuð. Árið 1987 ók Christian Hughes eins og ekkert væri inn um hliðið og bað um að fá að hitta starfsmannastjórann.

Talið var að Hughes væri sendill. Richard Weaver frá Kaliforníu sérhæfði sig í að lauma sér í forsetaatburði og komst fjórum sinnum inn á harðlokaða atburði. Lengst komst hann þegar hann náði að heilsa Bush með handabandi árið 2001. Weaver hélt því fram að guð hefði gert hann ósýnilegan öryggisvörðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×