Viðskipti innlent

Segjast ekki hafa komið nálægt tilraun til stofnfjárkaupa

Valur Grettisson skrifar
Sveinn Margeirsson og Rakel Gylfadóttir á fjölmennum fundi sem haldin var um Byr.
Sveinn Margeirsson og Rakel Gylfadóttir á fjölmennum fundi sem haldin var um Byr.

„Við komum ekkert að þessari sölu," segir Rakel Gylfadóttir sem býður sig fram ásamt Arnari Bjarnasyni í stjórn Byrs.

Arnar á eignarhaldsfélagið Reykjavík Invest sem hugðist kaupa stofnfjárbréf af skilanefndar Landsbankans en formaður nefndarinnar, Lárus Finnbogason, hugðist hafa milligöngu um það.

Salan var hinsvegar háð samþykki Skilanefndarinnar en hún stoppaði söluna í gærkvöldi eftir að Fréttastofa Stöðvar 2 hafði fjallað um málið.

Maður Rakelar, Sveinn Margeirsson, er í framboði til stjórnar Byrs auk Arnars og fleiri. Þau hafa verið mikið í fjölmiðlum og barist fyrir heilbrigðu sparisjóðskerfi og héldu fjölmennan fund um málefni þar sem hundruðir mættu.

Spurð hvot þessir viðskiptahættir endurspegli heilbrigt sparisjóðskerfi segir hún of djúpt í árina tekið.

„Við viljum heiðarleika og gegnsæi og það sem vakir fyrir okkur er að það sé heiðarlegt og grandvart fólk sem standi á bak við framboðið," segir Rakel en bætir við að hún vilji að málið sé skoðað ofan í kjölinn.

Hún segist ekki hafa rætt við Arnar eftir að málið kom upp. Hún segir það mikilvægt að fá að heyra hið rétta í málinu og að hann fái að svara fyrir sig.

„Okkur þykir sárast að umræðan skuli snúast upp í þetta í kringum Byr. Við vonum bara að heiðarleiki verði í fyrirrúmi og það sitji ekki áfram menn í stjórn sem skari að eigin köku," segir Rakel en aðalfundur Byrs verður haldin á morgun. Í framboði gegn þeim er stjórn Jóns Kr. Sólnes.

Eins og Vísir sagði frá fyrr í morgun þá er tilraunin til þess að selja stofnfjárbréfin til skoðunar hjá Fjármálaeftirlitinu.


Tengdar fréttir

Vilja stýra Byr

Hópur stofnfjáreigenda og annarra velunnara Byrs sparisjóðs hefur ákveðið að bjóða sig til forystustarfa í sparisjóðnum á aðalfundi hans þann 13. maí. Í hópnum er meðal annars Hörður Arnarson, fyrrverandi forstjóri Marels.

Fjármálaeftirlitið kannar stofnfjársölu Landsbankans

„Það er verið að láta kanna þetta," segir Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins um fyrirhugaða sölu á stofnfjárbréfum Byr til eignarhaldsfélagsins Reykjavík Invest sem fréttastofa Stöðvar 2 sagði frá í gær.

Segja söluna á BYR-hlutnum aldrei hafa átt sér stað

Skilanefnd Landsbanka Íslands hefur sent frá sér fréttatilkynning vegna fréttar Stöðvar 2 frá því fyrr í kvöld um sölu bankans á 2,6% stofnfjárhlut í BYR. Þar segir að sala þessi hafi verið háð samþykki Skilanefndarinnar. Afstaða Skilanefndar hafi hinsvegar ekki legið fyrir þegar tilkynningin var send Byr sparisjóði. Skilanefnd Landsbankans hafi tekið málið fyrir og salan hafi ekki hlotið samþykki nefndarinnar.

FME skoði sölu Landsbankans á BYR-hlut

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði í kvöld að ef einhver misbrestur væri á sölu Landsbankans á 2,6% hlut í BYR hljóti það að vera eitthvað sem Fjármálaeftirlitið muni skoða. Fréttastofa sagði frá því fyrr í kvöld að bankinn hefði selt umræddan hlut til félags sem heitir Reykjavík Invest. Formaður skilanefndar Landabankans, Lárus Finnbogason, er endurskoðandi félagsins. Hann vildi ekki gefa upp kaupverðið né hvernig hluturinn var fjármagnaður í samtali við fréttastofu.

Segja sölu Landsbankans á hlut í BYR spillingu

Skilanefnd Landsbankans seldi 2,6% hlut í Byr til lítils fjárfestingafélags rúmri viku fyrir aðalfund. Endurskoðandi félagsins er formaður skilanefndarinnar. Salan lyktar af atkvæðasmölun og spillingu segja stofnfjáreigendur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×