Innlent

Sorphirðugjöld hækka um allt að 50 prósent

Henný Hinz.
Henný Hinz.

Útsvar í fjölmennustu sveitarfélögum landsins hækkaði í flestum sveitarfélögum í fyrra. Þá hækkaði sorphirðugjald og vatnsgjald víða. Hækkunin á sorphirðugjaldi hækkaði um allt að 50%. Þetta kemur fram í úttekt verðlagseftirlits ASÍ sem tekið hefur saman upplýsingar um breytingar á útsvari og álagningu fasteignagjalda í 15 fjölmennustu sveitarfélögum landsins á árinu 2009.

,,Heillt á litið eru fasteignagjöld hjá flestum ekki að hækka en það eru liðir eins og sorpið og vatnið sem eru að hækka mikið víða," segir Henný Hinz hagfræðingur hjá ASÍ í samtali við fréttastofu.

Sorphirðugjald er hæst á Ísafirði

Sorphirðugjald er hæst á Ísafirði eða 37.800 krónur á íbúð og lægst í Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi, 14.000 krónur, sem er ríflega 97% munur.  Sorphirðugjaldið hækkar milli ára í öllum sveitarfélögunum nema Reykjavík, Reykjanesbæ, Fljótsdalshéraði og Seltjarnarnesi. Mesta hækkunin er í Skagfirið þar sem gjaldið hækkar um 50% frá fyrra ári. Á Akureyri og Akranesi hækkar sorphirðan um 35% og í Mosfellsbæ um 22%.  

Fasteignagjöld

Umtalsverð hækkun á fasteignagjöldum undanfarin ár kom til vegna þess að fasteignamat hækkaði mikið, að sögn Hennýjar. ,,Það hefur valdið mikilli hækkun á þeim gjöldum sem fasteignaeigandinn hefur endanlega borgað jafnvel þó að sveitarfélögin hafi ekki hreyft við neinu," segir Henný.

Fasteignaskattur víða óbreyttur

Í úttekt ASÍ kemur fram að fasteignaskattur er víðast óbreyttur frá fyrra ári en hækkar mest í Skagafirði um 16,5% og á Akureyri um 14%, að teknu tilliti til breytinga á fasteignamati. Árborg er eina sveitarfélagið sem lækkar álagningarhlutfall fasteignaskatts á milli ára, en á móti vegur að fasteignarmat íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu hækkar um 5%. Að teknu tilliti til þessa lækkar fasteignaskattur í Árborg um 3,5% frá fyrra ári.

Holræsagjald hækkar mest á Akranesi



Holræsagjald hækkar mest á milli ára á Akranesi, um 27%, í Kópavogi um 25% og í Vestmannaeyjum um 10%, að teknu tilliti til breytinga á fasteignamati. Á Akureyri lækkar holræsagjaldið um 12% vegna lækkunar á álagningarhlutfalli sveitarfélagins.



Vatnið hækkar mest í Reykjavík, á Akranesi og í Kópavogi


Vatnsgjald er hjá flestum sveitarfélögum innheimt sem hlutfall af fasteigamati en í Reykjavík, á Akureyri, Akranesi og í Vestmannaeyjum er innheimt fermetragjald auk fastagjalds fyrir notkun. Vatnsgjaldið hækkar mest á milli ára í Reykjavík og á Akranesi um 27%. Í Kópavogi hækkar vatnsgjaldið um 25%, á Akrueyri um 15% og í Reykjanesbæ um 9% vegna hærri álagningar sveitarfélagsins. Í Hafnarfirði lækkar vatnsgjaldið á milli ára vegna 13% lækkunar á álagningu sveitarfélagsins og í fjölbýlishúsum í Hafnarfirði bætist við lækkun á fasteigamati sem gerir það að verkum að vatnsgjaldið lækkar um 17%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×