Erlent

Loksins fann hann pabba

Óli Tynes skrifar
Matthew Roberts er talsvert líkur pabba sínum.
Matthew Roberts er talsvert líkur pabba sínum.

Matthew Roberts eyddi mörgum árum í að hafa upp á blóðföður sínum en hann var ættleiddur árið 1968. Roberts er nú fjörutíu og eins árs gamall og starfar sem plötusnúður í Los Angeles.

Eftir mikla leit fann hann loks móðir sína, en hún þrjóskaðist lengi við að segja honum hver faðirinn væri.

Eftir mikla eftirgangssemi sagði hún honum loks að faðir hans hefði nauðgað sér í eiturlyfjapartíi árið 1967. Og jú, hann héti Charles Manson.

Charles Manson eða öllu heldur hin svokallaða fjölskylda hans framdi níu hryllileg morð í Los Angeles árið 1969. Meðal fórnarlamba þeirra var leikkonan Sharon Tate eiginkona leikstjórans Romans Polanski.

Hún var gengin átta og hálfan mánuð með barn þeirra. Tate var myrt með sextán hnífstungum.

Það var mikið áfall fyrir Roberts að uppgötva loks hver faðír hans var. Engu að síður skrifaði hann honum bréf í fangelsið.

Manson svaraði með minnismiðum og kortum sem voru heldur ruglingsleg. Undirskriftin var hakakross nazistatáknið sem Manson lét tattóvera á enni sér.

Roberts á í tilfinningaróti; -Hann er faðir minn ég get ekki komist hjá því að hafa einhver tilfinningaleg tengsl við hann. Það er það erfiðasta af öllu, að elska skrímslið sem nauðgaði móður minni. Ég vil ekki elska hann en ég vil ekki hata hann heldur.

Feðgarnir þykja nauðalíkir í útliti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×