Innlent

Skert kennsla krefst sannfærandi raka

Katrín Jakobsdóttir
Katrín Jakobsdóttir

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra segir að mjög sannfærandi rök þurfi að koma til ef stytta eigi kennslutíma nemenda í grunnskólum landsins. Hún hefur kallað eftir greiningu á tíu milljarða króna kostnaðarauka innan grunnskólans á undanförnum árum.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur kynnt ráðuneytinu leiðir til að spara 1,5 milljarða á ári á næstu tveim skólaárum. Leiðin sem helst er horft til er að skerða kennslustundir um þrjár til fimm á viku, minnst hjá yngstu bekkjunum. Hagræðingarkrafa til grunnskólanna er 3,5 milljarðar á ári. Í ljósi þess að grunnskólinn er langstærsti einstaki kostnaðarliður sveitarfélaganna er talið að þar sé helsta matarholan til sparnaðar. Rökræðan á milli sveitarfélaganna og kennaraforystunnar um sparnaðarleiðir stendur yfir en kennarar hafa alfarið hafnað hugmyndum sveitarfélaganna.

Katrín segir að í ráðuneytinu sé einungis horft á málið út frá hagsmunum nemenda. „Það er okkar hlutverk að standa vörð um þeirra hagsmuni. Sá kostnaðarauki sem hefur orðið í grunnskólanum á undanförnum árum hefur vaxið um tíu milljarða á undanförnum árum og ekki tengst með neinum hætti auknum kröfum ríkisins á hendur sveitarfélögunum. Nú þegar þarf að spara þurfa því að koma til mjög sannfærandi rök til að skera niður kennslustundir hjá nemendum.“

Katrín segist hafa beitt sér fyrir því að kennaraforystan og sveitarfélögin vinni að málinu í sátt. „Það er verið að leita að lausn fyrir öll sveitarfélögin í landinu á sama tíma og staða þeirra er mjög misjöfn. Sveitarfélögin þurfa að svara því hvort leiðir þeirra til lausna henti öllum,“ segir Katrín.

Kennarar, líkt og Katrín, leggja áherslu á réttindi nemenda. Skerðing, í hvaða mynd sem hún yrði, feli í sér að gengið sé á hagsmuni barna sem nú séu á grunnskólaaldri. Sveitarfélögin hafa hins vegar bent á að lenging skólaársins sé nýtilkomin og vandséð að réttindasviftingin sé mikil.

Spurð hvort verið sé að ganga á hagsmuni nemenda í því ljósi að stutt er síðan skólaárið var lengt svarar Katrín með þeim hætti að í alþjóðlegum samanburði sé Ísland rétt í meðallagi hvað varðar þann tíma sem börn verja í skólanum. „Samfélagið hefur gjörbreyst á tiltölulega stuttum tíma og meta þarf skerðingu á kennslu í því samhengi líka.“

svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×