Íslenski boltinn

Viljum vera við toppinn eins lengi og hægt er

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Halldór Orri Björnsson hefur verið atkvæðamikill í leikjum Stjörnunnar til þessa.
Halldór Orri Björnsson hefur verið atkvæðamikill í leikjum Stjörnunnar til þessa. Mynd/Valli

Halldór Orri Björnsson, leikmaður Stjörnunnar, er leikmaður 7. umferðar Pepsi-deildarinnar að mati Fréttablaðsins. Hann skoraði tvö mörk í 4-1 sigri Stjörnunnar á Fram á sunnudagskvöldið.

Það var þriðji taplausi leikur Stjörnunnar í röð eftir að liðið tapaði stórt fyrir FH í Kaplakrika, 5-1. En Garðbæingar létu ekki slá sig út af laginu og hafa haldið sínu striki og gott betur.

Liðið er til að mynda það eina sem hefur bæði skorað og náð stigi í Keflavík til þessa. Þar var einmitt Halldór að verki en hann er næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar með fimm mörk, rétt eins og Blikinn Alfreð Finnbogason og Valur Fannar Gíslason hjá Fylki. Arnar Már Björgvinsson, félagi Halldórs hjá Stjörnunni, er markahæstur með sex mörk.

„Nei, það þýðir ekkert að slaka á," sagði Halldór í samtali við Fréttablaðið. „Það er bara þriðjungur búinn af þessu móti og því nóg eftir. Við viljum halda okkur við toppinn eins lengi og við getum."

Hann segist ekki hafa óttast að Stjörnumenn misstu dampinn í landsleikjafríinu sem nú er nýlokið.

„Nei, ég leit á þetta bara sem kærkomið tækifæri til að hvíla þreytta fætur eftir mikla keyrslu í upphafi móts. Bjarni (Jóhannsson þjálfari) gaf okkur sem erum búnir að spila mikið gott frí og var með æfingaleik fyrir hina. Það virðist hafa gefið góða raun, allavega miðað við fyrsta leikinn."

Það er mikið búið að fjalla um sóknarkraft Stjörnunnar en fyrirfram var reiknað með því að Stjarnan myndi bæði skora mörg mörk en fá einnig mörg á sig. Annað hefur komið á daginn og hefur Stjarnan fengið aðeins níu mörk á sig - þar af fimm í áðurnefndum leik gegn FH.

„Við skoruðum mörg mörk á undirbúningstímabilinu en fengum þá mörg á okkur líka. En þá vantaði líka Tryggva (Bjarnason). Hann var frá í nánast allan vetur en síðan hann kom aftur hefur varnarleikurinn jafnt og þétt verið að slípast til. Í dag þurfum við í sókninni engar áhyggjur að hafa af vörninni. Við erum með afar traustan markvörð og varnarlínu. Það gefur okkur hinum meira frelsi í sóknarleiknum."

Stjarnan mætir næst Fylki í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar en þessi lið hafa þegar mæst í deildinni. Þá vann Stjarnan 2-1 sigur þrátt fyrir að hafa verið manni færri í 80 mínútur.

„Þeir vilja sjálfsagt leiðrétta eitthvað úr þeim leik en við ætlum okkur að slá þá út úr þessari keppni."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×