Innlent

Reykjavíkurborg hækkar fjárhagsaðstoð við nauðstadda

Samkvæmt nýsamþykktri fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2009 er gert ráð fyrir að grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar við þá íbúa borgarinnar sem eiga rétt á aðstoð verði hækkuð um 16,35% og fjármagn til fjárhagsaðstoðar verði aukið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni.

Þar kemur fram að grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar verði hækkuð um 16,35%. Það þýði að framfærsla einstaklinga hækki úr 99.329 krónum á mánuði í 115.567. Sé miðað við hjón eða fólk í skráðri sambúð hækki framfærslan úr 158.926 krónum í 184.907. Fjármagn til fjárhagsaðstoðar verði einnig aukið og nemi aukningin 2,1 milljarði króna í fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2009.

„Forsendur fjárhagsáætlunar gera ráð fyrir 7% atvinnuleysi en vegna mikillar óvissu um hvernig atvinnuleysi mun þróast hefur verið ákveðið að fjárhagsaðstoð verði bundinn liður í fjárhagsáætlun borgarinnar. Það þýðir að aukist þörf fyrir fjárhagsaðstoð mun borgarsjóður koma til móts við aukin útgjöld. Heimildargreiðslur vegna barna verða einnig hækkaðar um 16,35% og verða einnig bundinn liður," segir í tilkynningu frá borginni.

Þar kemur fram að fjárhagsaðstoðin sé ætluð sem tímabundin neyðaraðstoð við þá sem hafi tekjur undir viðmiðunarmörkum. Að öllu jöfnu hafi umsækjendur kannað til þrautar rétt á öðrum greiðslum, ss. atvinnuleysisbótum, sjúkrabótum eða lífeyrisgreiðslum, áður en þeir sæki um fjárhagsaðstoð til sveitarfélagsins. Öll fjárhagsaðstoð til framfærslu sé skattskyld og af henni reiknuð staðgreiðsla skatta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×