Erlent

Saddam Hussein fær sjónvarpsrás

Óli Tynes skrifar
Saddam Hussein.
Saddam Hussein.
Dularfull sjónvarpsrás sem er tileinkuð Saddam Hussein hóf útsendingar í Írak um helgina. Sjónvarpsefnið er að mestu helgað Saddam og má þar bæði hlýða á ræður hans og ljóðalestur.

Þá má sjá myndir af honum við ýmis tækifæri, bæði í einkennisbúningi og borgaralegum klæðum. Er þá gjarnan leikin þjóðernistónlist á meðan.

Enginn virðist vita hvernig rásin er fjármögnuð eða hvaðan hún er send út. Associated Press fréttastofan hafði upp á Mohamed Jarboua sem býr í Sýrlandi. Hann viðurkennir að hann standa á bakvið rásina en vill litlar aðrar upplýsingar gefa.

Jarboua segir þó að þeir fái ekki eyri í stuðning frá íraska Baath flokknum sem Saddam stýrði meðan hann var við völd.

Hann segir að sjónvarpsrásin sé fyrir Íraka og aðra araba sem sakni Saddams Hussein. Saddam var hengdur á gamlárskvöld árið 2006.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×