Erlent

Berlusconi blóðugur á nýju veggspjaldi

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Berlusconi, rétt eftir árásina.
Berlusconi, rétt eftir árásina.

Silvio Berlusconi hefur fundið not fyrir fréttamyndir sem teknar voru af honum alblóðugum eftir líkamsárásina fyrr í mánuðinum.

Forsætisráðherrann ítalski missti tvær tennur auk þess sem nef hann brákaðist þegar óður maður grýtti styttu í andlit hans þar sem hann var á leið út af fundi hjá stjórnmálaflokki sínum, Frelsisflokknum, sem varð til við sameiningu Forza Italia og ítalska þjóðarflokksins í mars. Myndir af Berlusconi, blóði drifnum, munu nú prýða veggspjöld nýjustu auglýsingaherferðar flokksins, vafalítið sem tákn um baráttuanda hans í þágu þjóðar sinnar sem margir hafa nú reyndar gefið fremur lítið fyrir en skattsvik og fleira skrautlegt hefur einkennt umfjöllun um forsætisráðherrann meira upp á síðkastið en ötult stjórnmálastarf hans.

Í samvinnu við almannatengslaráðgjafa sína hefur auglýsingaspjaldið nú verið framleitt í þúsundum eintaka með slagorðinu „Ástin sigrar ætíð hatrið" og ætlar Berlusconi sér ekki minna en að ná einni milljón nýrra félaga í Frelsisflokkinn og rúlla upp kosningunum í vor. Reyndar gæti hann farið langt með það þar sem kannanir sýna að fylgi hans jókst um þrjú prósentustig eftir líkamsárásina á dögunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×