Enski boltinn

Benítez: United á líka eftir að spila við Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rafael Benítez, stjóri Liverpool.
Rafael Benítez, stjóri Liverpool. Mynd/AFP

Rafael Benítez, stjóri Liverpool, er langt frá því að vera búinn að gefast upp í titilbaráttunni þrátt fyrir að liðið hafi tapað tveimur dýrmætum stigum á heimavelli í 4-4 jafntefli á móti Arsenal í gær.

Liverpool fór með þessu stigi á toppinn í ensku úrvalsdeildinni á markatölu en Manchester United á tvo leiki til góða þar af annan gegn Portsmouth í kvöld.

„United var í bílstjórasætinu fyrir þennan leik. Ef þeir vinna á morgun (í kvöld) þá verður þetta mun erfiðara fyrir okkur en United á líka eftir að spila við Arsenal," sagði Rafael Benítez.

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, lofaði Liverpool-mönnum því að Arsenal myndi mæta í sama sóknarhug á Old Trafford 16. maí og þeir gerðu á Anfield í gær.

„Við vissum að við þurftum nánast að vinna alla leiki og það eru því mjög mikil vonbrigði að fá á okkur fjögur mörk. Þetta eru líka allt mörk sem við erum ekki vanir því að fá á okkur. Það jákvæða við þetta er að ná því að skora fjórum sinnum hjá Arsenal sem og að mínir menn börðust allt til enda," sagði Rafael Benítez.

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×