Erlent

Svínaflensan með mildari faröldrum

Bólusetning Læknir í Frakklandi sprautar í mann bóluefni gegn H1N1-veirunni.
fréttablaðið/AP
Bólusetning Læknir í Frakklandi sprautar í mann bóluefni gegn H1N1-veirunni. fréttablaðið/AP

Svínaflensan alræmda virðist ætla að verða einn mildasti heimsfaraldur sem sögur fara af. Um þetta eru breskir og bandarískir vísindamenn sammála.

Heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi hafa birt samantekt um fjölda dauðsfalla af völdum H1N1-veirunnar í Bretlandi til þessa. Frá júlí til loka nóvember hafa um 26 af hverjum 100 þúsund, sem smitast hafa í Bretlandi, látið lífið af völdum veirunnar.

Þetta er um bil hundrað sinnum lægra dánarhlutfall en spænska veikin hafði í för með sér árið 1918, en hún varð að minnsta kosti 50 milljón manns að bana um heim allan.Flensufaraldrar þeir, sem gengu yfir á árunum 1957 til 1968, voru um tíu sinnum mannskæðari en svínaflensan til þessa.

Þá sendu bandarískir vísindamenn nýverið frá sér tölur um svínaflensufaraldurinn þar í landi, og sögðu hann geta orðið mildasta heimsfaraldur sögunnar.

Enn er þó ekki útséð um það hve illskeytt þessi flensa verður, því veiran gæti tekið upp á að stökkbreyta sér og gerast mannskæðari.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×