Erlent

Brown skrifaði gúmmítékka og fór aldrei út með ruslið

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Tilkynningin frá bankanum.
Tilkynningin frá bankanum.

Ávísun frá Gordon Brown upp á þrjú pund fyrir leigu á stúdentagörðum reyndist innistæðulaus.

Reyndar var þetta mál ekki að koma upp núna en ávísunin er frá sumrinu 1972. Það er fyrrverandi húsvörður og leigueftirlitsmaður stúdentagarða Edinborgarháskóla sem heldur upp á gula miðann sem barst frá Skotlandsbanka og er dagsettur 29. júní 1972. Gordon Brown, nú forsætisráðherra Bretlands og maðurinn sem hefur heitið því að leiða landið út úr kreppunni, var þar við nám á áttunda áratugnum.

Húsvörðurinn, Bill Patterson, segir að Gordon Brown sé eini nemandinn sem hann man eftir sem greiddi fyrir leigu á stúdentagörðunum með innistæðulausri ávísun. Patterson íhugar nú að selja tilkynninguna frá bankanum á eBay til að drýgja tekjur þeirra hjóna í ellinni. Þrátt fyrir að málið sé tæplega fjögurra áratuga gamalt er það hreinn vatnsflaumur á myllu pólitískra andstæðinga Brown sem telja hann litlu hafa áorkað við að koma Bretum út úr ógöngum kreppunnar.

Húsvörðurinn segir einnig frá því að Brown hafi alltaf svikist um að þrífa eldhús stúdentagarðanna og fara út með ruslið sem sé merkileg hegðun af félagshyggjumanni. Þetta verða að teljast sögulegar staðreyndir enda lauk Brown doktorsprófi í sögu frá skólanum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×