Erlent

Reyndi að komast inn til Berlusconi með hníf

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Silvio Berlusconi.
Silvio Berlusconi.

Mikið mæðir á Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, þessa dagana en vopnaður maður reyndi í gær að lauma sér inn á sjúkrastofu hans.

Maðurinn var gripinn glóðvolgur í gær þegar hann reyndi að komast inn í herbergið þar sem Berlusconi liggur slasaður eftir að óður maður grýtti kirkjulíkneski í andlit hans á sunnudaginn. Að sögn ítalskra fjölmiðla var maðurinn, sem handtekinn var í gær, með hníf á sér og er ekkert vitað hvað honum gekk til en það hefur varla verið gott.

Berlusconi verður á sjúkrahúsinu að minnsta kosti til loka dagsins í dag en hann kvartar yfir verkjum í hálsi og er auðsjáanlega enn verulega lerkaður eftir árásina að sögn lækna hans. Þá mun hann hvíla sig á öllum stjórnmálaátökum í mánuð eftir að hann losnar af sjúkrahúsinu. Berlusconi er allt annað en vinsæll á Ítalíu og hefur fjöldi haturssíðna sprottið upp á Netinu honum til höfuðs.

Innanríkisráðherrann Roberto Maroni veit ekki sitt rjúkandi ráð yfir ástandinu og íhugar að banna síðurnar en það er lögbrot vegna ákvæða um tjáningarfrelsi. Hann hyggst því setja reglugerð sem veitir stjórnvöldum leyfi til að loka netsíðum af öryggisástæðum en vafasamt er hvort hún gangi framar lögum. Til að setja punktinn yfir i-ið á Berlusconi yfir höfði sér ákæru vegna umfangsmikilla skattsvika sem hann er grunaður um.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×