Erlent

Áfangaskýrsla vegna Air France-slyssins kynnt

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Hluti af Airbus-vél Air France fluttur til rannsóknarmiðstöðvar vegna slyssins.
Hluti af Airbus-vél Air France fluttur til rannsóknarmiðstöðvar vegna slyssins. MYND/AFP/Getty Images

Skýrsla rannsóknarhóps vegna farþegaþotu franska flugfélagsins Air France, sem fórst í Atlantshafi 1. júní í sumar, er væntanleg í dag og verður hún kynnt á blaðamannafundi í Frakklandi. Reyndar er ekki um endanlega skýrslu að ræða heldur áfangaskýrslu sem er númer tvö í röðinni. Stjórnandi rannsóknarinnar segir skýrsluna ekki innihalda neitt óvænt en hún fari dýpra í sum öryggisatriði sem virðist hafa verið ábótavant. Tuttugu og fjögur villuboð sem fjarskiptakerfi vélarinnar sendi sjálfvirkt út virðast gefa til kynna að vélin hafi annaðhvort flogið of hægt eða of hratt inn í dimman kólgubakka en eftir það hvarf hún af ratsjám.

Flugritar vélarinnar fundust aldrei og torveldar það rannsóknina mjög. Menn eru þó ekki á því að gefast upp og hyggst rannsóknarhópurinn hefja nýja leit á hafsbotni í febrúar, 1.000 kílómetra úti fyrir norðausturströnd Brasilíu en þaðan var vélin að koma. Í nýju leitinni munu fjarstýrðir leitarkafbátar, búnir hljóðsjám og fleiru, slæða stórt svæði botnsins í leit að ritunum. Af 228 manns, sem voru um borð í vélinni þennan örlagaríka júnídag, komst enginn af og stórir hlutir vélarinnar hafa aldrei fundist.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×