Innlent

Vilja afgreiða seðlabankafrumvarpið fyrir komu AGS

Þingmenn að störfum.
Þingmenn að störfum.

Ríkisstjórnarflokkarnir leggja mikla áherslu á að frumvarp um breytingar á Seðlabankanum verði að lögum áður en að sendinefnd á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kemur til landsins á fimmtudaginn til að fara yfir efnahagsáætlun sjóðsins og íslenskra stjórnvalda.

Taka átti frumvarpið til þriðju umræðu á Alþingi í dag en sú fyrirætlun breyttist eftir að Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, kaus með tillögu sjálfstæðismanna í viðskiptanefnd. Samkvæmt tillögunni á frumvarpið að bíða í nefndinni uns nefnd á vegum Evrópusambandsins hefur sett fram tillögur um eftirlitsaðila á fjármálamarkaði.

Samkvæmt heimildum fréttastofu ræða Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins ræða um stöðuna sem upp er komin.

Þingfundi sem átti að hefjast klukkan 15 hefur þrívegis verið frestað. Ráðgert er að hann hefjist klukkan 17:30.




Tengdar fréttir

Seðlabankafrumvarp verði eins gott og mögulegt er

„Það er enginn klofningur í flokknum. Við höfum verið mjög samstíga í þessu máli en eftir að hafa hlustað á sérfræðinginn í morgun þá mat ég það þannig að það væri tíðinda að vænta í þessari skýrslu sem snýst einmitt um þau mál sem við erum að ræða.“ Höskuldur Þórhallsson þingmaður Framsóknarflokksins.

Framsóknarmenn klofnir í Seðlabankamáli

Viðskiptanefnd náði ekki ljúka umfjöllun sinni um Seðlabankafrumvarpið á fundi sínum í morgun en til stóð að þriðja umræða um málið hæfist í dag. Fulltrúar Framsóknarflokksins í nefndinni, þeir Birkir Jón Jónsson og Höskuldur Þórhallsson, klofnuðu í afstöðu sinni. Birkir Jón greiddi atkvæði með tillögu ríkisstjórnarflokkanna um að afgreiða málið úr nefnd en það gerði Höskuldur ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×