Erlent

Sjóræningjar slepptu skipi eftir sjö mánuði

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Sómalskir sjóræningar létu í gær af hendi úkraínska flutningaskipið Ariana með 24 manna áhöfn eftir að þeir fengu tvær og hálfa milljón dollara í lausnarfé.

Sjóræningjarnir náðu skipinu á sitt vald 2. maí í vor þegar það var á leið frá Mið-Austurlöndum til Brasilíu með 10.000 tonn af sojabaunum. Áhöfnin var orðin nokkuð langeygð eftir frelsinu en samningar um tvær og hálfa milljón dollara í lausnargjald náðust í vikunni og fór greiðslan fram í gær. Þá hófst vinna við að koma vélum skipsins í gang sem er töluvert ferli eftir sjö mánaða stopp.

Viktor Júshenkó, forseti Úkraínu, flutti ávarp af þessu tilefni í gær og óskaði áhöfninni og fjölskyldum hennar til hamingju með frelsið. Eins og venja er voru sjóræningjarnir hinir alþýðlegustu og veittu Telegraph viðtal strax og falast var eftir því. Mohamed Ilkaase, sennilega sá þeirra sem er sleipastur í ensku, sagði að síðustu sjóræningjarnir hefðu farið frá borði um leið og peningarnir hefðu borist. Hann kvartaði yfir því að Grikkir hefðu verið ósveigjanlegir í samningum til að byrja með, en útgerð skipsins er grísk, upphaflegt lausnargjald hefði átt að vera 3,7 milljónir dollara en að lokum hefðu þeir ákveðið að sætta sig við 2,5 og málið væri dautt eins og þar segir.

Sómalskir sjóræningjar líta ekki á iðju sína sem afbrot heldur eingöngu strangheiðarlega tekjuöflun enda hagkerfi landsins rjúkandi rústir og ekki auðvelt að draga þar fram lífið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×