Rom Houben segist vera nánast eins og endurfæddur, nú þegar hann hefur fengið hjálp við að tjá sig eftir að hafa legið málvana í 23 ár lamaður eftir bílslys. Læknar héldu hann vera í dái allan tímann, þar til einn áttaði sig loks á því að Houben var með fullri meðvitund.
„Ímyndaðu þér bara. Þú heyrir, sérð, finnur til og hugsar en enginn áttar sig á því,“ segir hann með aðstoð talþjálfa, sem hjálpar honum að nota tölvulyklaborð til að tjá sig. „Þetta var sérstaklega pirrandi þegar fjölskyldan mín þurfti á mér að halda,“ sagði Houben, sem átti erfitt með að geta ekki sýnt nein viðbrögð þegar hann frétti af láti föður síns. „Ég gat ekki tekið þátt í sorg þeirra. Við gátum ekki veitt hvert öðru neinn stuðning.“
Talþjálfinn, Linda Wouters, segir Houben stýra hönd hennar á lyklaborðinu. Hún finnur fyrir léttum þrýstingi frá fingrum hans, og greinilegt sé þegar hann mótmælir ef hún ætlar að ýta á rangan hnapp á lyklaborðinu. Til þess að ganga úr skugga um að það sé í raun Houbens sem stýrir stafavalinu hefur verið prófað að sýna honum hluti meðan Wouters er ekki nærri, og síðan er hann spurður út í það sem hann sá þegar hún kemur til baka að aðstoða hann.- gb