Innlent

Magma kemst í kringum íslensk lög

Kanadíska jarðhitafélagið Magma Energy kemst í kringum íslensk lög, sem takmarka fjárfestingar útlendinga í íslenskum orkufyrirtækjum, með sænsku skúffufélagi.

Kanadíska félagið Magma Energy hefur þegar eignast yfir tíu prósenta hlut í HS orku. HS orka ræður yfir orkuvinnsluréttindum á Reykjanesi til næstu sextíu og fimm ára, og jafnvel lengur samkvæmt samningi við Reykjanesbæ. Kanadíska félagið langar til að eignast ríflega þrjátíu prósenta hlut Orkuveitunnar.

Magma Energy er skráð í Kanada, en fjárfestir hér á landi í gegnum sænskt dótturfélag sitt. Eftir því sem fréttastofa kemst næst, þá var félagið stofnað nýlega, og sérstaklega til fjárfestinga hér á landi.

En af hverju? Samkvæmt íslenskum lögum þá má kanadískt félag ekki, og raunar ekki nokkurt félag annað utan Evrópska efnahagssvæðsins, eiga hlut í íslensku orkufyrirtæki.

Magma lét kanna hvort það gæti stofnað félag hérlendis til að sjá um fjárfestingarnar, en það þótti ekki standast lög.

Þessi lög eru um takmarkanir á fjárfestingum útlendinga hér. Það er hins vegar svo að séu félög með heimilisfesti annars staðar á evrópska efnahagssvæðinu, þá gildir það sama og um innlend félög.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst, þá var það þess vegna sem Magma Energy fór þá leið að stofna skúffufélag í Svíþjóð, sérstaklega til fjárfestinga hér. Þannig komst félagið í kringum lög sem annars hefðu komið í veg fyrir að það gæti eignast hlut í íslensku orkufyrirtæki.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×