Innlent

Fallast á dómsátt í lóðadeilu

Félagið sem samdi um kaup á lóðinni á Sturlugötu 10 fyrir 260 milljónir króna getur fengið hana eftir fimm ár. Fréttablaðið/Valli
Félagið sem samdi um kaup á lóðinni á Sturlugötu 10 fyrir 260 milljónir króna getur fengið hana eftir fimm ár. Fréttablaðið/Valli
Borgarráð hefur samþykkt að leysa ágreining vegna lóðarinnar Sturlugötu 10 með dómsátt.

Eins og kunnugt er stefndi S-10 borginni eftir að samningur um að fyrirtækið fengi lóð við hlið húss Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) fyrir 260 milljónir króna var dreginn til baka af hálfu borgarinnar. ÍE telur lóðina vera sína eign og mótmælti viðskiptunum harðlega. Eigandi S-10 er eigandi byggingar ÍE og telur lóðina hafa fylgt með þegar félagið keypti húsið á sínum tíma.

Samkvæmt dómsáttinni fær S-10 vilyrði um að eftir fimm ár fái félagið forgang að lóðinni og að þá verði skipulagi svæðisins lokið. ÍE hefur hins vegar ekki fallið frá sínum kröfum vegna lóðarinnar.

Fulltrúar Samfylkingarinnar í borgarráði sátu hjá við afgreiðslu málsins. Sögðu þeir tilefni dómsmálsins vera algjöran viðsnúning sem orðið hafi þegar meirihluti borgarstjórnar stóð ekki við samþykkt meirihluta borgarráðs. „Það er því ekki að undra að þeir sem fengu samþykkta lóðarúthlutun, sem síðan var tekin af þeim af sömu aðilum, hafi farið í dómsmál, enda hringlandaháttur þáverandi meirihluta þyngri en tárum taki,“ sagði í bókun fulltrúa Samfylkingarinnar.

- gar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×