Innlent

Farið inn í viðræður við stjórnendur LSH á byrjunarreit

Fundur geislafræðinga á Landspítalanum og stjórnenda spítalans hefur verið boðaður klukkan eitt í dag en þar á að reyna að leysa deilu aðilanna um vaktafyrirkomulag geislafræðinganna.

Um 40 geislafræðingar hugðust segja upp störfum 1. maí vegna óánægju með breytingar á vaktafyrirkomulagi. Þeir ákváðu hins vegar á miðvikudag að fresta uppsögnunum um einn mánuð og reyna að leysa deilu sína við spítalayfirvöld.

Kristín Þórmundsdóttir, trúnaðarmaður geislafræðinga, segir aðila fara inn í viðræðurnar á byrjunarreit. Ræða þurfi hvernig landið liggi og reyna að komast að samkomulagi. Aðspurð hvort til greina komi að geislafræðingar fari fram á það við stjórnendur Landspítalans að núverandi vaktafyrirkomulag gildi í eitt ár líkt og gert var í samningi við hjúkrunarfræðinga segir Kristín að hún geti ekkert sagt til um það. Það verði að koma í ljós og menn reyni að ná sáttum í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×