Innlent

Verðbólgan hækkar áfram og er nú 12,3 prósent

Verðbólgan mælist 12,3 prósent í maí eftir að vísitala neysluverðs hækkaði um 1,37 prósent milli apríl og maí. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofunnar.

Verðbólgan reyndist 11,8 prósent í síðasta mánuði og hafði þá ekki verið meiri frá því í september 1990 þegar hún reyndist 12 prósent. Til þess að finna hærri verðbólgu nú þarf að fara einn mánuð aftur, en í ágúst 1990 reyndist verðbólgan 14,2 prósent.

Fram kemur í frétt Hagstofunnar að gengissig krónunnar og erlendar verðhækkanir haldi áfram að skila sér út í verðlagið og hækkaði verð á innfluttum vörum um 1,7 prósent og verð á bensíni og olíum um 5,7 prósent. Kostnaður vegna eigin húsnæðis lækkaði hins vegar um 0,2 prósent, þar af voru áhrif af lækkun markaðsverðs 0,15 prósent en áhrif af hækkun raunvaxta voru 0,11 prósent. Þá hækkaði verð á mat og drykkjarvöru um 1,9 prósent.

Verðbólga 28 prósent síðustu þrjá mánuði

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 12,3 prósent en verðbólga án húsnæðis er 11,4 prósent. Þegar horft er til síðustu þriggja mánaða hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6,4 prósent sem jafngildir 28 prósenta verðbólgu á ári.

Greiningardeild Landsbankans reyndist næst réttum verðbólgutölum í spá sinni en hún hafði gert ráð fyrir 12,1 prósents verðbólgu í maí. Greiningardeild Kaupþings gerði ráð fyrir 12,6 prósenta verðbólgu og greiningardeild Glitnis óbreyttri verðbólgu eða 11,8 prósentum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×