Erlent

Tsvangirai segir herforingjastjórn stýra Simbabve

Morgan Tsvangirai.
Morgan Tsvangirai. MYND/AP

Morgan Tsvangirai, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Simbabve, segir herforingjastjórn stýra landinu um þessar mundir.

Hann sagði 66 stuðningsmenn stjórnarandstöðunnar hafa verið drepna og 200 væri saknað frá því að forsetakosningar fóru fram í landinu í mars. Eins og fram hefur komið hlaut Tsvangirai flest atkvæði í þeim kosningum en ekki tilskilinn meirihluta atkvæða til þess að steypa Robert Mugabe forseta af stóli. Því þarf að kjósa aftur á milli þeirra tveggja og fara kosningar fram í lok mánaðarins.

Orð Tsvangirais eru á svipuðum nótum og skýrsla mannréttindasamtakanna Human Rights Watch sem segir að Robert Mugabe og stuðningsmenn hans hafi fellt tugi stjórnarandstæðinga að undanförnu. Kosningarnar í lok mánaðar geti því aldrei verið lýðræðislegar.

Tsvangirai sagði á blaðamannafundi í dag að hann væri hins vegar viss um sigur í kosningunum og vísaði algjörlega á bug hugmyndum um þjóðstjórn í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×