Erlent

Opnunarhátíð Ólympíuleikanna hafin

Kínverjar hafa ekkert sparað til þess að hafa hátíðina sem glæsilegasta.
Kínverjar hafa ekkert sparað til þess að hafa hátíðina sem glæsilegasta. MYND/AFP
Setningarathöfn Ólympíuleikanna í Peking hófst nú í hádeginu. Þjóðarleiðtogar stórveldanna og önnur fyrirmenni hafa komið sér fyrir í heiðursstúkunum. Setningarathöfnin verður með því glæsilegasta sem sést hefur á þessu sviði, en hún hófst á slaginu klukkan átta mínútur yfir átta, á áttunda degi, áttunda mánaðar, áttunda árs nýrrar aldar, það er að segja klukkan átta mínútur yfir tólf að íslenskum tíma.

Það er ekki tilviljun að nákvæmlega þessi tími er valinn fyrir setningu leikanna, því talan átta hefur margháttaða táknræna þýðingu í kínverskri menningu. Orðið sjálft hljómar svipað og heppni eða velgengni og hvort tveggja hugnast Kínverjum. En svo eru hin ódauðlegu átta kjarninn í kínverskri goðafræði - átta ódauðlegir andar hafa afl til að ákvarða yfir lífi og dauða, einskonar alvaldur guð í guðleysi búddismans. En það er hið veraldlega vald sem skiptir máli í dag.







Bush var glaðbeittur þegar hann mætti á áhorfendapallana.MYND/AFP

Hu Jintao, forseti Kína, hefur verið önnum kafinn undanfarna daga að taka á móti þjóðhöfðingjum og fyrirmennum víðsvegar að, Bush Bandaríkjaforseta, Pútín fyrrverandi Rússlandsforseta og nú forsætisráðherra, Sarkozy Frakklandsforseta, Kevin Rudd, forsætisráðherra Ástralíu, Fukuda forsætisráðherra Japans, og fleiri og fleiri. Öllu þessu fólki var boðið í mat í Alþýðuhöllinni í Beijing í gærkvöld og þar skipta réttirnir yfirleitt mörgum tugum. Stjórnendur leikanna hafa lagt nótt við dag að undanförnu til að gera leikana eins glæsilega og mögulegt er.

Fjöldi erlendra ferðamanna er í borginni til að fylgjast með þessari mestu íþróttaveislu heims, sem mun tröllríða sjónvarpsútsetningum um víða veröld næstu tvær vikurnar. Þúsundir á þúsundir ofan streymdu inn í nýja Ólympíuleikvanginn í allan morgun - eða allan dag að kínverskum tíma; þeir eru átta tímum á undan okkur hér. Reiknað var með rúmlega 90 þúsund áhorfendum við setningarathöfnina.





Og öryggisgæsla er í hámarki, eins og við er að búast. Rúmlega 100 þúsund her- og lögreglumenn standa vaktina og eiga að sjá til þess að ekkert óvænt gerist. Kínverjar vilja ekki að sagan frá Atlanta í Bandaríkjunum endurtaki sig en þar var gerð sprengjuárás á leikana, eins og menn muna.

Og veðrið í Beijing er ágætt en mistur í lofti og mengun í andrúmslofti miklu meiri en talið er hollt fólki.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×