Lífið

Fær eina milljón sænskar

Steinunn segir verðlaunin færa mikla von og vera gott dæmi um hve nýsköpun á Íslandi skiptir miklu máli.
Steinunn segir verðlaunin færa mikla von og vera gott dæmi um hve nýsköpun á Íslandi skiptir miklu máli. Fréttablaðið/Haraldur Jónasson

„Mér finnst þetta rosalega stór viðurkenning því þetta er í fyrsta skipti sem þeir veita þessi verðlaun fyrir fatahönnun," segir Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður sem hlýtur hin sænsku Söderbergs-verðlaun í ár. Steinunn hefur að sögn dómnefndar meðal annars fært Norðurlöndunum virtan fulltrúa á hinu alþjóðlega tískusviði með innblæstri frá íslenskri náttúru, en Söderbergs-verðlaunin eru ein stærstu hönnunarverðlaun heims, með 1.000.000 sænskar krónur í verðlaunafé.

„Það er ótrúlega skemmtilegt að verðlaunin skuli fara til Íslendings. Eftir atburði síðustu mánaða hefur það breyst hvernig maður lítur á þau. Mér finnst verðlaunin færa mikla von og minna á að við eigum ekki að leggja árar í bát. Mér finnst rosalega mikilvægt að það sé lögð meiri áhersla á nýsköpun á Íslandi og mér finnst þessi verðlaun vera gott dæmi um það," segir Steinunn. Hún mun taka við verðlaununum við hátíðlega athöfn 4. nóvember í Röhsska-safninu í Gautaborg, þar sem haldin verður sýning á hönnun Steinunnar í kjölfarið.

Steinunn er nú í óðaönn að undirbúa næstu línu sem verður tilbúin í febrúar. Hún segist ætla að koma verðlaunafénu inn í fyrirtækið og segist óhjákvæmilega finna fyrir afleiðingum kreppunnar. „Það eru færri sem leggja út í að kaupa af nýjum hönnuðum, fólk hefur minni kaupmátt og pantanirnar eru ekki eins stórar, en maður verður að halda sínu striki og vona það besta."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.