Innlent

Samfylkingin vill endurskoðun á fiskveiðilögum

Karl V. Matthíasson er formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis.
Karl V. Matthíasson er formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Samfylkingarinnar ítrekar þá afstöðu sína að nauðsynlegt sé að taka alvarlega úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um útfærslu kvótakerfisins og skorar á ríkisstjórn og Alþingi að bregðast við með endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða.

Nefndin bendir í tilkynningu á tillögur Jóhanns Ársælssonar, fyrrverandi þingmanns flokksins, um afnám gjaldfrjálsrar úthlutunar í áföngum á tuttugu árum þannig að á meðan njóti núverandi handhafar veiðiheimilda markaðsvirðis þeirra heimilda sem þeir missa. Með þessari aðferð sé kerfið opnað og mannréttindi tryggð en svo um búið að útgerðarfyrirtækin fái góðan aðlögunartíma og missa einskis af því fé sem þau hafa fest í heimildunum.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Samfylkingarinnar segir enn fremur í tilkynningunni að ná þurfi samstöðu um viðbrögð af þessu tagi áður en svarfrestur íslenskra stjórnvalda í málinu rennur út 11. júní næstkomandi.

Við þetta má bæta að Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði á þingi á dögunum að svar stjórnvalda myndi liggja fyrir áður en fresturinn rynni út og hann vonaðist til að geta kynnt þingmönnum það áður en þingi lyki nú í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×