Innlent

Trúnaðarmanni Strætó sagt upp störfum - segist lagður í einelti

Breki Logason skrifar
Strætó
Strætó

Jóhannes Gunnarsson vagnstjóri hefur verið trúnaðarmaður hjá Strætó BS síðan í nóvember. Mikil ólga hefur verið milli trúnaðarmanna Strætó og forstjórans Reynis Jónssonar. Jóhannes mætti meðal annars niður í Héraðsdóm í gærmorgun til þess að ræða málin. Í kjölfarið var honum boðinn starfslokasamningur sem hann þáði ekki og var í kjölfarið sagt upp störfum.

„Ég fékk nú aldrei neinar skýringar á því hversvegna mér var sagt upp. Ég var boðaður á fund í morgun og spurðist fyrir um hvort ég þyrfti að hafa fulltrúa frá mínu félagi með mér. Mér var sagt að svo væri ekki en þegar á fundinn var komið var mér sagt upp störfum," segir Jóhannes sem vildi fresta fundinum og hafa sinn fulltrúa, Ögmund Jónasson formann BSRB með sér.

Jóhannes hringdi því í Ögmund sem kom upp á Hestháls með formanni starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. „Við ætluðum að verða vitni að því sem þar var að gerast en þá voru stjórnendur Strætó horfnir á braut. Næsta skref hjá okkur er því að taka málið upp við okkar lögfræðinga, við lítum málið mjög alvarlegum augum," segir Ögmundur Jónasson um málið.

Jóhannes segir að eftir þessa uppákomu hafi hann ætlað að fara út í herbergi þar sem vagnstjórar eru með aðstöðu og taka saman dótið sitt.

„Þá kom deildarstjóri akstursdeildar og vísaði mér út úr húsi, ég fékk því ekki að taka saman dótið."

Trúnaðarmannahópurinn sem hefur verið hjá Strætó undir forystu Jóhannesar hefur náð mjög vel saman að hans sögn. Voru þau virk í að ræða við forstjórann og í upphafi gekk allt mjög vel.

Í nóvember varð hinsvegar uppákoma sem breytti miklu. Þá voru trúnaðarmannaskipti í félaginu og Jóhannes og félagar tóku formlega við.

Eftir fundinn var boðið upp á bjór og léttvín. Sex manna hópur tók síðan strætó heim frá Hlemmi en framkvæmdarstjóri fyrirtækisins og deildarstjóri akstursdeildar voru þá kallaðir út vegna ölvunnar trúnaðramanna. Í kjölfarið fékk Jóhannes áminningu í starfi en deilur hafa verið um hversu ölvaðir trúnaðarmennirnir voru. Þá áminningu vildi Jóhannes fá ógilda fyrir Héraðsdómi í gær.

„Lögfræðingur forstjórans taldi lausnina í málinu vera að bjóða mér starfslokasamaning sem ég þáði ekki, í kjölfarið var ég svo rekinn," segir Jóhannes sem vill meina að forstjórinn hafi lagt sig í einelti eftir uppákomuna á Hlemmi.

Forsvarsmenn Strætó BS vildu ekki tjá sig um málið þegar Vísir leitaði eftir því í morgun. Símastúlka hjá Strætó sagði forstjórann ætla að tjá sig um málið eftir helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×