Innlent

Verzlóstúdentar fá úthlutað úr 50 milljóna króna sjóði

Á morgun verða 263 nemendur brautskráðir frá Verzlunarskóla Íslands. Við sama tækifæri verður úthlutað úr 50 milljóna króna sjóði sem sterkefnaðir fyrrverandi nemendur skóla söfnuðu í. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum.

Í tilkynningunni segir að sjóðurinn hafi verið stofnaður í tilefni af 100 ára afmæli skólans. Úthlutað verði í fyrsta sinn á morgun. Í skipulagsskrá fyrir sjóðinn segir meðal annars að árlega skuli sjóðurinn styrkja valda nemendur skólans með fjárframlagi, þegar þeir flytjist milli bekkja eða þegar þeir ljúki stúdentsprófi. Skuli við það miðað að styrkþegar hafi sýnt afburða námsárangur eða lagt verulega af mörkum til skólastarfsins með þátttöku í félagslífi og þess háttar. Nemendur geti einnig sótt um styrk til sjóðsins eða fengið styrk án umsóknar samkvæmt ákvörðun sjóðstjórnar. Að þessu sinni verður úthlutað 3,5 milljónum til nemenda skólans.

Af þeim 263 nemendum sem útskrifast á morgun eru 255 úr dagskóla og 8 úr fjarnámi. Það eru 149 stúlkur og 114 strákar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×