Innlent

Mótmæla Goldfinger-úrskurði með því að hreinsa til í ráðuneyti

Nokkar konur munu í hádeginu hreinsa dómsmálaráðuneytið á táknrænan hátt til þess að mótmæla úrskurði ráðuneytins varðandi leyfi Goldfinger til nektardans. Í tilkynningu frá þeim segir að full þörf sé að lofta rækilega út og þrífa út gamaldags viðhorf sem komi í veg fyrir að ráðuneytið sinni skyldum sínum og berjist gegn mansali.

 

„Kornið sem fyllti mælinn var úrskurður dómsmálaráðuneytisins í fyrradag þar sem Lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins var gert að endurskoða umsögn sína um nektardans á Goldfinger. Lögreglustjórinn hafði áður sent neikvæða umsögn sem hefði skv. núgildandi reglum átt að verða til þess að leyfi til nektardans yrði ekki veitt. Staðurinn hefur þó starfað skv. bráðabirgðaleyfi á meðan dómsmálaráðuneytið vann úr áfrýjun Brynjars Níelssonar fyrir hönd staðarins.

 

Síðustu ár hafa sérfræðingar keppst við að benda á tengsl milli vændis, nektardans, kláms og mansals. Kvennaathvarfið, Stígamót, Alþjóðahúsið, lögreglan og fleiri hafa staðfest að mansal þrífst hér á landi og rannsóknir hafa sýnt fram á að vændi þrífst á nektardansstöðum - það eru ógreinanleg mörk á milli vændis og mansals. Þrátt fyrir þetta er umsögn lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins talin of huglæg samkvæmt dómsmálaráðuneytinu og hagsmunir Ásgeirs Davíðssonar teknir fram fyrir baráttuna gegn vændi og mansali, enn einu sinni," segir í tilkynningu kvennanna.

Samningar undirritaðir en ekki farið eftir þeim

Þær segja enn fremur að Ísland hafi undirritað alþjóðasamninga gegn mansali, þar á meðal samning Sameinuðu þjóðanna kenndan við Palermo og samning Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali. Þegar heim sé komið skortir svo pólitískan vilja til að fara eftir samningunum.

„Enn á ný er verið að gera breytingar á hegningarlögunum án þess að gengið sé alla leið og þeim úrræðum sem vitað er að bíta á mansali sé beitt. Því er eðlilegt að spurt sé Af hverju:

 

· er ekki búið að leggja bann við kaupum á vændi?

· er ekki búið að setja siðareglur fyrir opinbera starfsmenn sem banna kaup á kynlífsþjónustu?

· er ekki farið að lögum sem banna sölu og dreifingu á klámi?

· eru veittar undanþágur við lög sem banna nektarsýningar á veitingastöðum?

· er ekki búið að samþykkja lög um fórnarlambavernd þeirra sem verða fyrir mansali?

· er ekki búið að samþykkja brottvísun og heimsóknarbann vegna ofbeldis inni á heimilum?

· er ekki löngu komin aðgerðaráætlun gegn mansali?

· eru rannsóknir um áhrif og afleiðingar klámvæðingarinnar alltaf dregnar í efa?

· hafa stjórnvöld ekki viljað fullgilda alþjóðasáttmála gegn mansali?

· eru ekki veittar undanþágur á atvinnu- og dvalaleyfi ef einstaklingur hefur orðið fyrir ofbeldi?

· verja sumir karlmenn aðgang sinn að líkömum kvenna með þessum krafti?

 

Hverra hagsmuna er verið að gæta? Það er greinilega eitthvað rotið í dómsmálaráðuneytinu og full þörf á að hreinsa út," spyrja konurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×