Innlent

Ágreiningur um hrefnuveiðar ekki stórmál

MYND/GVA

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir ágreining ríkisstjórnarflokkanna um hrefnuveiðar ekki það stórt mál að það sé spurning um hvort stjórnin sitji eða ekki. Þetta kom fram í utandagskrárumræðu á Alþingi í dag sem efnt var til að frumkvæði Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins.

Guðni benti á að alvarleg væri að menn töluðu tungum tveim í ríkisstjórninni og vísaði þar til andstöðu ráðherra Samfylkingarinnar við þá ákvörðun sjávarútvegsráðherra að heimila veiðar á 40 hrefnum. Sagði hann opinberan ágreining veikja málstað Íslands og að sjávarútvegsráðherra hefði verið lítillækkaður. Spurði Guðni forsætisráðherra hvort hann teysti Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríksiráðherra til þess að verja hagsmuni Íslands í hrefnuveiðimálinu eins og hún hefði sagst mundu gera á alþjóðavettvangi.

Snýst um ólíkt hagsmunamat

Forsætisráðherra sagði vissulega óvenjulegt að stjórnarflokkur gerði opinberan ágreining í máli á þennan hátt en þetta væri ekki stór mál. Hér væri ekki á ferðinni mál sem á Norðurlöndum héti kabinetmál og réði því hvort stjórn sæti eða ekki. Málið snerist um það hvernig fólk legði mat á málið út frá ólíkum hagsmunum. Ráðherra sagði að þeir Guðni ættu að standa saman um að ljúka þessum veiðum sem heimilaðar væru á grundvelli þingsályktunar sem samþykkt hefði verið árið 1999. Íslendingar væru með þessu að fylgja eftir rétti sínum til þess að nýta auðlindir sínar með sjálfbærum hætti.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði málið hafa gríðarleg áhrif á ímynd Íslands. Vísaði hún enn fremur til nýrrar skýrslu nefndar á vegum forsætisráðherra sem hefði sagt tvo veikleika skaða ímynd Íslands öðru fremur. Það væru fjármálakerfið og hvalveiðarnar. Taldi hún menn á kolrangri braut að fara í hvalveiðar nú. Um þingsályktunina frá árinu 1999 sagði Steinunn að 22 nýir þingmenn hefðu tekið sæti á Alþingi í fyrra og ef afstaða þingheims væri könnuð nú væri hún sannfærð um að hún væri önnur en árið 1999.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, sagði misráðið að hefja atvinnuveiðar á ný og benti á að það skipti miklu mál hvernig staðið væri að máli af þessu tagi. Þetta væri rugl í ríkisstjórninni og henni til háborinnar skammar. Þá gagnrýndi hann Samfylkinguna fyrir kattarþvott í málinu, fyrir að reyna að frýja sig ábyrgð í málinu en hún bæri fulla ábyrgð á því þar sem hún sæti í ríkisstjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×