Innlent

Verð hér 64 prósentum hærra en að meðaltali innan ESB

Verð á matvöru hér á landi er 64 prósentum hærra en að meðaltali í ESB-ríkjunum og allmargir samningar birgja og matvöruverslana fela í sér ákvæði sem kunna að raska samkeppni. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Samkeppniseftirlitsins um viðskiptasamninga birgja og matvöruverslana og annað samstarf fyrirtækja á matvöru markaði.

Eftir því sem segir í tilkynningu stofnunarinnar ber birgjum og matvöruverslunum að ganga úr skugga um að samningar þeirra feli ekki í sér samkeppnishindranir. Þá bendir könnun Samkeppniseftirlitsins til þess að forverðmerkingar birgja á matvörum takmarki verðsamkeppni milli matvöruverslana. Verðmunur á þessum vörum milli verslana sé margfalt minni en eðlislíkra vara sem ekki eru forverðmerktar.

Bendir eftirlitið aðilum á þessum markaði á nokkur atriði í samningum sem geti fali í sér samkeppnishindranir og segist munu fylgja því eftir að samningar feli ekki í sér brot á samkeppnislögum. „Fyrirtæki sem verða uppvís að samkeppnislagabrotum mega vænta þess að þurfa að sæta viðurlögum," segir í tilkynningunni. Telur Samkeppniseftirlitið að með umræddum aðgerðum sé hægt að efla samkeppni og lækka verð til íslenskra neytenda.

Samkeppniseftirlitið réðst í gerð skýrslunnar eftir að hafa aflað og farið yfir fjölda viðskiptasamninga birgja og matvöruverslana og annarra endursöluaðila í því skyni að meta áhrif þeirra á samkeppni á matvörumarkaði. Beindist gagnaöflunin að um 70 birgjum.

Skýrsluna í heild sinni má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×