Innlent

Strætó óheimilt að velja lækni fyrir vagnstjóra

Landlæknisembættið telur stjórnendur Strætó bs. ekki geta gert þá kröfu að starfsfólk tilkynni veikindi sín og veiti nánari upplýsingar um sjúkdóma sína til annars læknis en það kýs sjálft að leita til. Trúnaðarmenn Strætós óskuðu eftir úrskurði landlæknis vegna samskipta starfsmanna fyrirtækisins og Heilsuverndarstöðvarinnar Impro.

Í bréfi sem trúnaðarmennirnir sendu Landlæknisembættinu kemur fram að starfsfólki fyrirtækisins sé skylt að tilkynna sig veika á tvo staði. Annarsvegar til fyrirtækisins og hins vegar til Heilsuverndarstöðvarinnar Impro.

Í áliti landlæknisembættisins segir:

„Það er álit landlæknisembættisins að samband sjúklings og læknis eða annars heilbrigðisstarfsfólks sé trúnaðarsamband um viðkvæm persónuleg málefni og slíkt samband verði ekki fært til fyrirtækis án samþykkis sjúklings.

Trúnaðarlækni fyrirtækis þess, sem sjúklingur starfar hjá, er heimilt að leita upplýsinga hjá þeim lækni sem ritað hefur vottorð vegna óvinnufærni starfsmannsins, en trúnaðarlækni er óheimilt að ræða veikindi einstakra starfsmanna við atvinnurekanda, nema með samþykki sjúklings."

Trúnaðarmennirnir gera einnig athugasemd við að eiginkona framkvæmdarstjóra Strætós bs. er framkvæmdarstjóri Heilsuverndarstöðvarinnar Impro.

Í álitinu segir að þar sem embættið telji að starfsfólki sé ekki skylt að tilkynna veikindi sín til þriðja aðila sé ekki tekin afstaða til hugsanlegra hagsmunaárekstra vegna tengsla framkvæmdastjóra Strætó bs. og framkvæmdastjóra Inpro.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×