Innlent

Vonast til að Íslendingur losni úr haldi í Reno í vikunni

Vonir standa til að íslenskur karlmaður, Fannar Gunnlaugsson, sem setið hefur í fangelsi í mánuð í Bandaríkjunum fyrir að hafa skilað dvalarleyfispappírum aðeins of seint, losni úr haldi í vikunni. Þetta segir Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins.

Sagt er frá máli Fannars í bæði Fréttablaðinu og DV í dag. Þar kemur fram að Fannar hafi dvalið í fangelsi í Reno í Nevada síðustu fjórar vikur erftir að hann skilaði umsókn um endurnýjað dvalarleyfi tveimur dögum og seint. Fannar á barn með bandarískri konu en hefur aðeins fengið atvinnuleyfi í landinu og 90 daga dvalarleyfi í senn, ekki svonefnt grænt kort.

Að sögn föður hans þarf Fannar að dvelja í klefa sínum allt upp í 23 klukkustundur á sólarhring. Fram kemur í DV að Fannar hafi átt bókað far í þrígang með Icelandair frá Minneapolis til Íslands en að sögn föður hans virðist stranda á fjárveitingu til að senda hann frá Reno til Minneapolis.

Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir málið hafa komið á borð ráðuneytisins og það fylgist með framvindu þess. Sendiráð Íslands í Washington hafi komið að málinu. Vonast sé til að Fannar losni úr haldi síðar í vikunni en það fáist ekki staðfest fyrr en á morgun því í dag sé frídagur í Bandaríkjunum og allar stofnanir vestan hafs lokaðar.

Aðspurð hvort utanríkisráðuneytið telji þetta eðlilega málsmeðferð segir Urður að erfitt sé að segja um það. Mál sem þetta hafi ekki verið mörg á borði utanríkisráðuneytisins. „Mönnum þykir þetta vera dálítið langur tími en við getum ekki sagt til um það hvort hann er óeðlilega langur," segir Urður.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×