Innlent

Borgarstjóri ekki starfi sínu vaxinn

Sóley Tómasdóttir varaborgarfulltrúi Vg.
Sóley Tómasdóttir varaborgarfulltrúi Vg.

Í kvöldfréttum í gær sagði borgarstjóri að fyrirætlanir Tjarnarkvartettsins um að efla mannréttindaskrifstofu borgarinnar hafi verið tilraun til að þenja út stjórnkerfið. Hann sagði jafnframt að starfsemi skrifstofunnar hafi verið óljós og illa skilgreind. Verkefni skrifstofunnar séu ekki jafn brýn og að tryggja velferð og góða þjónustu við borgarbúa.

Sóley Tómasdóttir varaborgarfulltrúi Vg og fyrrum formaður mannréttindaráðs vekur máls á þessu í bréfi sem hún hefur sent fjölmiðlum. Þar segir einnig:

Þessi ummæli borgarstjórans eru til skammar, enda byggð á vanþekkingu á málaflokknum, fordómum og virðingarleysi gagnvart minnihlutahópum og borgarbúum öllum.

Mannréttindaskrifstofa – ekki stjórnkerfi

Borgarstjórinn hélt því ranglega fram að til hefði staðið að gera sérstakt mannréttindasvið. Oddiviti F-listans í Tjarnarkvartettinum og núverandi borgarstjóri er nú ekki betur að sér en það.

Efling mannréttindaskrifstofunnar snérist alls ekki um stjórnkerfi. Hún snérist um að ráða inn starfsfólk til að skrifstofan gæti sinnt þeim verkefnum sem henni ber samkvæmt mannréttindastefnu borgarinnar. Sú stefna var unnin í þverpólítískri sátt og samþykkt með öllum greiddum atkvæðum, þ.m.t. akvæði Ólafs F. Magnússonar.

Óljós og illa skilgreind starfsemi

Það er rétt hjá borgarstjóra að starfsemin hafi verið óljós. Fyrst og fremst vegna þess að allt þar til Tjarnarkvartettinn tók við hafði einni manneskju verið ætlað að sinna öllum þeim fjölda verkefna sem borginni ber. Fyrirætlanir um starfsfólk á skrifstofuna til viðbótar við mannréttindastjórann voru til þess eins að skerpa á starfseminni og efla afköst hennar.

 

Mannréttindi ekki jafn brýn og velferð og góð þjónusta

Að halda því fram að grundvallarmannréttindi borgarbúa séu ekki jafn brýn og velferð og góð þjónusta væri án efa tilefni til afsagnar borgarstjóra í sanngjörnu og réttlátu samfélagi.

Borgarstjórinn í Reykjavík telur 85 milljónir króna í málaflokk mannréttinda vera peningaaustur.

Þau nýju verkefni sem borgarstjórinn telur óþörf lúta m.a. að eftirfarandi:

- Vinna gegn kynbundnu ofbeldi.

- Efla aðgengi innflytjenda að samfélaginu með áherslu á gagnkvæma aðlögun að fjölmenningarsamfélagi.

- Átak í atvinnumálum fatlaðra hjá borginni

- Útrýma kynbundnum launamun hjá borginni.

- Gera húsnæði borgarinnar aðgengilegt fyrir alla.

- Vinna gegn staðalímyndum kynjanna, innflytjenda, fatlaðra og samkynhneigðra.

- Hafa áhrif á erlendum vettvangi sem fyrirmyndarborg á sviði mannréttinda.

Borgarstjórinn í Reykjavík ber ekki hagsmuni borgarbúa fyrir brjósti. Hans verk tala. Hugsjónir sem fyrst og fremst snúast um dauða hluti. Hús og götur. Bíla og flugvélar. Borgarbúar, og grundvallarmannréttindi þeirra eru ekki 85 milljóna króna virði að hans mati. Slíkur borgarstjóri er ekki starfi sínu vaxinn!




Fleiri fréttir

Sjá meira


×