Innlent

Afleiðingar verðbólgu á húsnæðislán

Verðbólgan mælist nú 11,8 prósent hefur ekki verið meiri í átján ár. Fram kom í máli Grétars Þorsteinssonar, forseta ASÍ, í fréttum Stöðvar tvö í gær að þetta kunni að hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Einstaklingur keypti sér íbúð á 20 milljónir króna árið 2005. Íbúðina greiddi hann með 100 prósenta jafngreiðsluláni til 25 ára með föstum 4,15 prósent vöxtum. Fyrsta afborgun nam 107 þúsund krónum og var greidd í febrúar sama ár.

Þegar verðbólgunnar fer að gæta 1. júní næstkomandi verður mánaðarleg afborgun af láninu komin upp í 134 þúsund krónur og hefur því hækkað um alls 27 þúsund krónur frá fyrsta gjalddaga. Þetta gerir um 324 þúsund krónur aukalega á ári.

Til samanburðar má nefna að samkvæmt samantekt Hagstofunnar námu meðallaun á almennum vinnumarkaði í fyrra um þrjú hundruð og þrjátíu þúsund krónum. Því má segja að hækkunin á afborguninni éti upp mánaðarlaun venjulegs launamanns.

Eftir að hafa greitt fjörutíu sinnum af láninu er niðurstaðan þessi: Þann 1. júní næstkomandi hefur höfuðstóll lánsins hækkað um þrjár milljónir og stendur lánið þá í tuttugu og þremur milljónum. Bara á þessu ári hefur lánið hækkað um tæpa milljón vegna verðbólgu. Á sama tíma hefur verðmæti íbúðarinnar aukist um tæpar 15 milljónir miðað við meðalhækkun íbúða á höfuðborgarsvæðinu.

Fari hins vegar svo að spá Seðlabankans um 30 prósenta lækkun íbúðaverðs gangi eftir verður söluverðmæti íbúðarinnar komið niður í 24,5 milljónir í lok næsta árs. Haldi verðbólgan áfram að aukast getur því sú staða hæglega komið upp að verðmæti íbúðarinnar verði minna en lánið sem á henni hvílir. Seljandi þyrfti því að borga með sér ef hann ætlaði sér að selja íbúðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×