Innlent

Víða hálka, él og lítið ferðaveður

MYND/Valgarður Gíslason

Ófært er um Fjarðarheiði og allur mokstur hættur þar í kvöld, segir í tilkynningu frá Vegagerðinni. Þá er greint frá hálku og skafrenningi á Holtavörðuheiði og hálkublettum á Bröttubrekku.

Á Vestfjörðum eru hálkublettir og skafrenningur á Steingrímsfjarðarheiði. Snjóþekja er yfir Eyrarfjall. Hálkublettir eru á Klettshálsi, einnig eru hálkublettir á Hrafnseyrarheiði og á Ströndum.

Á Norðurlandi er hálka og skafrenningur á Þverárfjalli. Hálka og krapi er á milli Hofsóss og Siglufjarðar. Hálka er á Lágheiði.

Á Norð-Austurlandi er mjög mikil hálka eða snjóþekja, éljagangur og skafrenningur. Varað er við óveðri á Mývatnsöræfum og mjög slæmri færð. Þæfingur er á Hólasandi og á milli Raufarhafnar og Þórshafnar. Á Austurlandi er þungfært og stórhríð á Möðrudalsöræfum, þungfært og skafrenningur er á Vopnafjarðarheiði og ekkert ferðaverður á þessum leiðum.

Þæfingur er Sandvíkurheiði. Snjóþekja, skafrenningur og óveður er á Fagradal. Hálkublettir og skafrenningur er á Oddskarði. Þungfært er á Breiðdalsheiði og ófært er yfir Öxi, Hellisheiði eystri og Vatnsskarð eystra.

Á Suð-Austurlandi er víðast hvar greiðfærir fyrir utan sandfok á Mýrdalssandi og óveður er undir Eyjafjöllum.

Vegna hættu á slitlagsskemmdum eru þungatakmarkanir víða og eru flutningsaðilar beðnir að kynna sér það nánar í síma 1777. Vegna framkvæmda á Hringvegi 1 í Borgarnesi er umferð beint um hjáleið. Vegfarendur eru beðnir að sýna aðgát og tillitsemi. Einnig er unnið við slitlagsviðgerðir í Norðurárdal og á Borgarfjarðarbraut og þar er hætta á grjótkasti.

Vegagerðin minnir vegfarendur á að vegna framkvæmda við tvöföldun Reykjanesbrautar er nauðsynlegt að sýna þar aðgát. Sérstaklega er fólk beðið að fara varlega við framhjáhlaup við Voga, Grindavíkurveg og Njarðvík. Mikilvægt er að virða hraðatakmarkanir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×