Innlent

Alvarleg staða í samningaviðræðum hjúkrunarfræðinga og ríkis

MYND/Vilhelm

Samninganefndir Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og samninganefnd ríkisins ákveða í dag eða á morgun hvort kjaradeilu þeirra verði vísað til ríkissáttasemjara. Alvarleg staða er komin upp í málinu að sögn hjúkrunarfræðinga.

Fram kemur á heimasíðu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga að fyrsti fundur samningsaðila hafi verið haldinn 18. mars þar sem FÍH lagði áherslu á að gera skammtímasamning enda gefi efnahagsástand ekki forsendur til annars.

Á fundinum í morgun hafi samninganefnd ríkisins lagt til að þriggja ára samningi sem að mati FÍH felur í sér kjaraskerðingu. „Fundinum lauk að ósk SNR, sem ekki taldi forendur fyrir framhaldi fundarins. Samningsaðilar munu í dag eða á morgun taka ákvörðun um hvort deilunni verði vísað til sáttasemjara ríkisins.

Trúnaðarmenn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hafa verið kallaðir til fundar á morgun 30. apríl, en þann dag rennur gildandi kjarasamningur út," segir enn fremur í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×