Innlent

Ákærður fyrir að skipta sér af lögreglu en var sýknaður

Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag sýknaður af ákæru um brot gegn áfengis- og lögreglulögum, með því að hafa sökum ölvunar valdið óspektum á almannafæri með truflandi háttsemi í garð lögreglumanna sem voru við skyldustörf og óhlýðnast fyrirmælum lögreglu að víkja á brott.

Maðurinn sem um ræðir varð vitni af því þegar um 10 lögreglumenn voru að handtaka konu á horni Bankastrætis og Skólavörðustígs. Í fyrstu veitti maðurinn því ekki mikla athygli oh fór inn á pítsustað rétt hjá. Þegar hann kom þaðan út aftur, um fimmtán mínútum síðar, voru lögreglumennirnir enn að bjástra við að handtaka konuna.

Maðurinn segir að fjórir þeirra hefðu legið á henni en hún hefði þá verið komin í handjárn og með andlitið í götuna. Þegar hann heyrði ógurleg öskur frá hinni handteknu ákvað maðurinn að snúa við, ganga að lögreglumanni, sem stóð um tíu metra frá vettvangi, og spyrja: ,,Þurfið þið virkilega að vera fjórir að handtaka konu sem er komin í handjárn."

Maðurinn segir að lögreglumaðurinn hafi þá svarað með þjósti að hann ætti ekki að skipta sér af því sem honum kæmi ekki við og ef hann kæmi sér ekki í burtu yrði hann handtekinn. Maðurinn kvaðst þá hafa sagt að það gæti ekki staðist að hægt væri að handtaka hann fyrir að spyrja spurninga. Lögreglumaðurinn skipað honum þá að snúa sér við og handtók hann.

Maðurinn var því næst fluttur á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem tekin var af honum skýrsla.

Hann var svo ákærður fyrir að hafa verið með óspektir á almannafæri og með truflandi háttsemi í garð lögreglumanna sem voru við skyldustörf.

Þrír lögreglumenn voru kallaðir fyrir dómara þegar réttað var í málinu. Enginn þeirra mundi eftir atvikum málsins. Kærasta ákærði mætti hins vegar fyrir dóminn og staðfesti frásögn unnusta síns.

Það var því niðurstaða dómara að ekki væri komin fram sönnun um að maðurinn hefði valdið óspektum, truflað störf lögreglumanna eða óhlýðnast fyrirmælum þeirra með þeim hætti að hann verði talinn hafa gerst brotlegur við lagaákvæði. Hann var því sýknaður.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×