Innlent

Þrír handteknir vegna íkveikju í skóglendi í nótt

Þrír ungir menn voru handteknir í grennd við Hvaleyrarvatn í nótt, grunaðir um að hafa kveikt þar í með þeim afleiðingum að mikið tjón varð á trjágróðri á svæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.

Þeir eru í haldi lögreglu og verða yfirheyrðir nánar í dag. Tilkynnt var um eldinn upp úr klukkan tvö í nótt og að hann væri mjög magnaður vegna hvassviðris.

Allir liðsmenn slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu sem voru á frívakt voru kallaðir út og voru rúmlega 30 menn sendir á vettvang með mikinn tækjabúnað. Auk þess var Björgunarsveitin í Hafnarfirði kölluð út sem kom með tækjabúnað til að auðvelda slökkviliðsmönnum aðgengi að eldinum, sem skíðlogaði í trjágróðrinum en þarna eru allt að fjögurra metra há tré.

Eldurinn stefndi að skátaskálanum, sem er á svæðinu, en slökkviliðsmönnum tókst að verja hann. Slökkvistarf stóð alveg fram á sjötta tímann í morgun og hefur slökkviliðið vakt á svæðinu.

Talið er að trjágróður hafi eyðilagst á rúmlega tíu þúsund fermetra svæði, eða rúmum hektara. Auk þeirra þriggja, sem voru handteknir í nótt, var einn handtekinn í fyrrinótt, grunaður um íkveikjur, en honum var sleppt í gær. Ekki liggur fyrir hvort hann játaði eitthvað á sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×