Innlent

Frelsa þarf Evrópuumræðuna úr flokkunum sem óttast átök

MYND/Pjetur

Viðskiptaráðherra telur að finna verði leiðir og vegvísa til að frelsa Evópusambandsumræðuna út úr flokkunum sem óttast átök og klofning. Þjóðin muni ráða þessu sjálf að lokum og eigi að gera það.

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra gerir grein Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi Seðlabankastjóra og formanns Framsóknarflokksins, í Morgunblaðinu í dag að umtalsefni í pistli á heimasíðu sinni. Þar sagði Jón að tími væri kominn til að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Björgvin segir greinina boða breytingar á umræðunni um Evrópumál. ,,Hún er um leið tákn um þann þunga sem er í umræðunni. Yfirveguð grein Jóns er til marks um að stór hluti Framsóknarflokksins er tilbúinn til að láta til skarar skríða og keyra fram nýja stefnu flokksins í þessu máli," segir Björgvin.

Þá segir Björgvin að greinin boði einnig aðrar breytingar, þær að umræðan fari upp úr förum flokkastjórnmála og flokkarnir skiptist í afstöðu sinni til málsins. ,,Líklega allir nema Samfylkingin sem hefur þá stefnu að sækja beri um aðild að ESB," segir Björgvin.

Viðskiptaráðherra heldur því enn fremur fram að finna verði leiðir og vegvísa til að frelsa umræðuna út úr flokkunum sem óttist átök og klofning. Þjóðin muni ráða þessu sjálf að lokum og eigi að gera það.

,,Þessvegna þykir mér vel koma til greina að viðhafa tvöfalt þjóðarakvæði. Fyrst um aðildarumsóknina sjálfa og annað um samninginn þegar hann liggur fyrir," segir Björgvin. Þá sé tryggt að góður meirihluti sé fyrir aðildarumsókn og ágæt sátt um málið á meðal almennings. ,,Um leið hitt að kaleikurinn er tekinn frá flokknum og við komumst áfram með þetta stærsta hagsmunamál okkar tíma," segir viðskiptaráðherra enn fremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×