Innlent

Vilja að orka úr Þjórsá fari í netþjónabú í heimabyggð

Meðal þess sem virkja á er Urriðafoss.
Meðal þess sem virkja á er Urriðafoss.

Forsvarsmenn fjögurra sveitarfélaga í kringum Þjórsá samþykktu á fundi sínum í dag koma á fót framkvæmdanefnd til þess að vinna að því að orkan úr fyrirhuguðum virkjunum í neðri hluta Þjórsár verði nýtt til atvinnuuppbyggingar í sveitarfélögunum fjórum.

 

Sveitarfélögin sem um ræðir eru Rangárþing ytra, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Ásahreppur og Flóahreppur. Í fundargerð kemur fram að sjónir manna beinist nú í auknum mæli að uppbyggingu netþjónabúa og annarrar orkufrekrar atvinnuuppbyggingar sem ekki reiði sig á hafsækni. Netþjónabú og önnur umhverfisvæn uppbygging sé vænlegur kostur fyrir svæðið.

 

Á fundinum var farið yfir stöðu mála varðandi virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Landsvirkjun hefur áform um að reisa þar þrjár virkjanir, Holtavirkjun, Hvammsvirkjun og Urriðafossvirkjun. Sveitarstjórnarmenn segja mikilvægt að vinna saman að verkefninu og sýna fram á kosti og möguleika alls svæðisins fyrir netþjónauppbyggingu. Mikilvægt sé að bregðast skjótt við og tryggja að orkan úr virkjununum verði ekki seld öll af svæðinu. Samstaða sé um það innan hópsins að bjóða atvinnutækifærum af þessu tagi aðstöðu til uppbyggingar.

Samþykkti fundurinn að senda frá sér yfirlýsingu um óskir þess efnis að skoðaðir verði rækilega möguleikar á því að orkufrek atvinnuuppbygging fari fram innan þessara fjögurra sveitarfélaga. Verður leitað eftir stuðningi Sambands sunnlenskra sveitarfélaga og Atvinnuþróunarfélags Suðurlands.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×